Neyðarviðbrögðum Rauða krossins á skjálftasvæðunum lokið

2. júl. 2008

Rauði krossinn hefur lokið neyðarviðbrögðum sínum á jarðskjálftasvæðunum á Suðurlandi.  Áfallahjálpin hefur nú verið flutt frá þjónustumiðstöðvum skjálftanna í húsnæði heilbrigðisstofnana Suðurlands á Selfossi og  í Hveragerði.

Með því að hringja í síma 480 5114 á milli kl. 8:00 og 18:00 á virkum dögum er hægt að óska eftir viðtali við sálfræðing.  Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið afallahjalp@hsu.is.

Rauði krossinn var með opnar fjöldahjálparstöðvar á Selfossi og í Hveragerði þrjá fyrstu sólarhringana eftir að jarðskjálftinn reið yfir fimmtudaginn 29. maí, þar sem fólki á Suðurlandi gafst færi á að leita skjóls og fá sálrænan stuðning hjá áfallahjálparteymi félagsins.  Sjálfboðaliðar Rauða krossins af Suðurlandi, Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu veittu aðstoð í fjöldahjálparstöðvunum.

Eftir að fjöldahjálparstöðvunum var lokað, veitti starfsfólk Rauða krossins áfallahjálp í þjónustumiðstöðvunum í húsnæði Rauða krossins í Hveragerði og í Tryggvaskála á Selfossi þar til heilbrigðisstofnanir Suðurlands tóku við því hlutverki.

Á þriðja hundrað manns nýttu sér áfallahjálparþjónustu Rauða krossins.  Undanfarið hefur verið hringt í þessa einstaklinga til að kanna líðan þeirra, en slík eftirfylgni er hluti af þjónustu Rauða krossins þegar sálrænn stuðningur er veittur.