Rauði krossinn stendur áfram sólarhringsvakt á skjálftasvæðinu

31. maí 2008

Rauði krossinn verður með vakt í Hveragerði og á Selfossi eftir lokun þjónustumiðstöðva þar í kvöld, og fram til hádegis á morgun. Fólki er einnig bent á að hringja í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 til að leita sér upplýsinga og aðstoðar.

Í Hveragerði verða sjálfboðaliðar við í húsnæði Rauða krossins í Austurmörk frá kl. 18:00 í kvöld og getur fólk leitað þangað eftir lokun þjónustumiðstöðvar sem er í sama húsi.

Þá verða sjálfboðaliðar á vakt á Selfossi í húsnæði Rauða krossins að Eyravegi 23 frá kl. 19:00 í kvöld og fram á hádegi á morgun sunnudag þegar þjónustumiðstöðin í Tryggvaskála opnar aftur.

Fólk getur því leitað til Rauða krossins allan sólarhringinn þó svo að fjöldahjálparstöðvum hafi verið lokað við grunnskólann í Hveragerði og Vallarskóla á Selfossi frá og með deginum í dag.

Áfallahjálparteymi Rauða krossins mun einnig halda áfram að veita þjónustu í þjónustumiðstöðvunum á morgun frá kl. 13:00-16:00 á Selfossi og klukkan 14:00 - 16:00 í Hveragerði.

Nokkur hundruð manns hefur nýtt sér sálrænan stuðning hjá Rauða krossinum undanfarna 3 daga á skjálftasvæðinu og því er ljóst að mikil þörf er á þeirri þjónustu áfram.

Myndir