Fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins opnar í nótt

30. maí 2008

Sjálfboðaliðar Rauða krossins munu áfram standa vaktir í nótt og á morgun í fjöldahjálparstöðvum til að veita aðstoð á jarðskjálftasvæðunum.

Fjöldahjálparstöðin í grunnskólanum í Hveragerði verður opin fram til kl. 8 í fyrramálið, en þá verður vaktin færð í húsnæði Rauða krossins við Austurmörk. Áfallahjálparteymi Rauða krossins verður með aðstoð þar milli kl. 13:00 -16:00 á morgun, laugardag.

Á Selfossi verður fjöldahjálparstöð Rauða krossins opin að minnsta kosti næsta sólarhring. Sjálfboðaliðar Rauða krossins veita þar sálrænan stuðning, og áfallahjálparteymi verður svo við þar á morgun milli kl. 13:00-18:00.

Rauði krossinn er einnig einn af þeim aðilum sem kemur að þjónustumiðstöð almannavarna sem ríkisstjórnin samþykkti að setja á laggirnar og á að taka til starfa sem fyrst.

Haldnir voru fræðslufundir um áfallastreitu og áfallahjálp í Hveragerði, á Selfossi og Eryrarbakka í dag, og mun Rauði krossinn veita þá þjónustu næstu daga á hamfarasvæðinu. Þá er fólki einnig bent á að hringja í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 til að fá upplýsingar og aðstoð.

Hátt í tvöhundruð sjálfboðaliðar af Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum hafa skipt með sér vöktum undanfarinn sólarhring og munu vera til staðar svo lengi sem þörf er á.

Fjölmargir þáðu aðstoð áfallahjálparteyma í Hveragerði, Selfossi og Eyrarbakka í dag. Að sögn Jóhanns Thoroddsen, verkefnisstjóra Rauða krossins í sálrænum stuðningi, er ljóst að margir búa enn að reynslu af skjálftunum árið 2000. Skelfing meðal íbúa sé þó ekki eins útbreidd og þá. Engu að síður tókust teymin á við erfið mál í störfum sínum í dag.