Sjálfboðaliðar Rauða krossins áfram að störfum vegna eldgossins í Grímsvötnum

27. maí 2011

Þjónustumiðstöð hefur nú tekið við hlutverki fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins á Kirkjubæjarklaustri og verður hún staðsett í grunnskólanum þar. Tveir starfsmenn eru fulltrúar Rauða krossins í starfi þjónustumiðstöðvarinnar og munu taka þátt í að veita áfallahjálp og sálrænan stuðning, og skipuleggja hreinsunarstarf með sjálfboðaliðum.

Þeir sem vilja leggja hönd á plóg og hjálpa við hreinsunarstörfin er boðið að hafa samband við Rauða kross Íslands og skrá sig á heimasíðunni raudikrossinn.is eða hringja í Hjálparsíma Rauða krossins 1717. Rauði krossinn bendir einnig á fræðsluefni á vefsíðu félagsins um sálrænan stuðning og aðstoð við börn í kjölfar áfalla.

Sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins hafa verið að störfum frá því eldgosið hófst í Grímsvötnum síðastliðinn laugardag. Opnaðar voru fjöldahjálparstöðvar á Kirkjubæjarklaustri og í Hofgarði í Öræfum þar sem fólki gafst færi á að koma saman og fá sálrænan stuðning.  Rauði krossinn átti einnig fulltrúa í samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð.

Hornafjarðardeild Rauða krossins sá um fjöldahjálparstöðin í Hofgarði. Íbúar á svæðinu nýttu sér að koma saman, fá kaffi og njóta ráðgjafar hjá sjálfboðaliðum, sóknarpresti og ráðunauti búnaðarsambandsins. Einnig sáu sjálfboðaliðar Rauða krossins um að færa íbúum nauðsynleg lyf og vistir eftir því sem þurfti. Öskufall varð einkum fyrsta sólarhring gossins í Öræfum, og því ákveðið að loka fjöldahjálparstöðinni á fimmtudag þegar dró að mestu úr gosinu.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins sáu einnig um fjöldahjálparstöðina á Kirkjubæjarklaustri auk svæðisstarfsmanns af Suðurlandi.