Vorferð sjálfboðaliða Hveragerðisdeildar

Eyrúnu Sigurðardóttur formann Hveragerðisdeildar

27. maí 2008

Hveragerðisdeild Rauða krossins bauð í fyrsta sinn sjálfboðaliðum í prjónahópi og heimsókavinum í vorferð. Fyrsti viðkomustaður var landsskrifstofa Rauða krossins þar sem okkur var boðið í hádegismat, sagt var frá starfseminni og húsið skoðað.

Þaðan lá leiðin til deildarinnar í Kópavogi þar sem beið okkar kaffi, meðlæti og fræðsla um þá miklu starfsemi sem þau sinna. Það vildi svo skemmtilega til að á þessum degi átti Kópavogsdeildin 50 ára afmæli og við óskum þeim enn og aftur innilega til hamingju með daginn.

Því næst lá leiðin í fataflokkunina í Hafnarfirði þar sem Örn og Sigrún tóku á móti okkur opnum örmum og fræddu um þeirra störf. Það er engin smá vinna sem þar fer fram með hjálp fjölmargra sjálfboðaliða. Síðasti viðkomustaður var Vin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir. Þar var einnig tekið á móti okkur með kaffi og meðlæti. Vorum við frædd um starfsemi Vinjar og fengum að skoða þetta fallega gamla hús. Gestir Vinjar voru á staðunum og gátu þeir einnig frætt okkur um ýmislegt og það er greinilegt að þeim líður vel að koma þangað. 

Þetta var alveg frábær dagur og allir sjálfboðaliðarnir komu heim vel upplýstir og með miklu meiri nánd við það sem Rauði krossinn er að gera. 

Ég vil þakka þeim Sólborgu Pétursdóttur og Helgu Halldórsdóttur alveg sérstaklega  fyrir þeirra þátt til að gera þessa ferð mögulega, því þær skipulögðu hana að fullu. Í lokin vil ég hvetja allar deildir sem fara í ferðir með sjálfboðaliða að gera slíkt hið sama því það verður alveg ný upplifun á starfsemi Rauða krossins.

Eyrún Sigurðardóttir, formaður Hveragerðisdeildar.