Hvernig er þín ferilskrá?

Fjólu Einarsdóttur verkefnisstjóra Rauða kross Íslands

15. ágú. 2011

Í þjóðfélagi nútímans er oftast nær gerð krafa til einstaklinga sem sækja um vinnu að þeir sendi inn ferilskrá. Til þess að koma til móts við þá sem þurfa aðstoð við gerð ferilskrár hefur Rauði krossinn í samstarfi við Virkjun ákveðið að bjóða upp á einstaklingsaðstoð í gerð ferilskrár í húsnæði Virkjunar. Aðstoðin er ókeypis og fer fram á miðvikudögum og fimmtudögum út ágúst frá kl. 10:00-16:00. Þú, atvinnuleitandi góður, kemur í Virkjun með helstu upplýsingar um starfsreynslu þína, menntun og þau námskeið sem þú hefur tekið. Á staðnum fer fram myndataka fyrir ferilskrána og upplýsingarnar verða settar upp á vandaðan og snyrtilegan hátt. Tilvalið er að nýta sér þessa aðstoð og í leiðinni að kynnast starfssemi Virkjunar og fá upplýsingar um þau úrræði sem Rauði krossinn á Suðurnesjum býður atvinnuleitendum í vetur.

Þeir atvinnuleitendur sem hafa áhuga á því að styrkja sig enn frekar gefst kostur á að taka þátt í verkefninu Félagsvinir atvinnuleitenda sem fer af stað í byrjun september. Markmið verkefnisins er að vinna gegn niðurbroti þeirra sem misst hafa vinnu, stækka tengslanet og auka möguleika til starfa. Lögð er áhersla á að auka bæði félagslega virkni þátttakenda og aðgengi þeirra að upplýsingum um þau úrræði sem eru í boði fyrir atvinnuleitendur. Virkni á meðan á atvinnuleit stendur eykur sjálfstraust og vellíðan sem gerir það að verkum að fólk er tilbúið að mæta til starfa þegar kallið kemur. Nánari upplýsingar um verkefnið er hægt að nálgast í Virkjun að Flugvallarbraut 740 eða hjá Guðmundi I. Jónssyni verkefnisstjóra hjá Rauða krossinum með því að senda póst á netfangið gij@redcross.is eða hringja í síma 420-4706.

Að hika er sama og að tapa, segir máltækið – hafir þú áhuga á að nýta þér þessi úrræði skaltu bregðast strax við. Brosandi starfsfólk og ilmandi kaffi tekur á móti þér!