Handavinnuhópur Hveragerðisdeildar

19. des. 2007

Hjá Hveragerðisdeild tók á haustdögum til starfa prjóna- og saumahópur í húsnæði deildarinnar. Hópurinn hittist einu sinni í viku, á fimmtudögum, klukkan 13:00 – 16:00. Strax í fyrstu viku komu nokkrar konur saman til að sauma og prjóna til góðra verka og um leið og þetta spurðist út fjölgaði í hópnum.

Verkefnin eru tvíþætt. Annars vegar eru framleiddar prjónavörur sem seldar eru til styrktar hjálparstarfi. Hinsvegar eru útbúnir fatapakkar fyrir ungabörn 0-1 árs samkvæmt fyrirfram ákveðinni uppskrift verkefnisins „Föt sem framlag”.  Ungbarnapakkarnir verða sendir til vinadeildar Rauða krossins í  Lower River í Gambíu, þar sem þeim verður dreift í samstarfi við heilsugæsluna til ungra fátækra mæðra.

Í síðustu viku seldi hópurinn vörur sínar á basar í verslunarmiðstöðinni Sunnumörk. Þar var seld prjónavara sem var afrakstur haustsins, og einnig fallegur notaður fatnaður, auk þess sem til sölu voru afrískir skartgripir til styrktar vinadeildinni í Gambíu. Salan gekk vel og myndaðist skemmtileg stemming í kringum sölubásinn.

Mikil ánægja er með þetta verkefni hjá deildinni. Að sögn umsjónarkonu verkefnisins, Soffíu Pálmadóttur, hefur þetta farið langt fram úr björtustu vonum og gaman hve vel gengur.