Áfangi í sjálfboðnu starfi í undirbúningi hjá FSU

18. okt. 2007

Áhugi er fyrir því hjá Árnesingadeild Rauða krossins að hefja samstarf við Fjölbrautarskóla Suðurlands með þeim hætti að í boði verði hjá  skólanum sérstakur áfangi í sjálfboðnu starfi.

Uppbygging áfangans verður þannig að nemendur geta valið sér sjálfboðaverkefni á fyrirfram völdum stöðum, t.d. öldrunarstofnunum, athvarfi fyrir geðfatlaða eða vinnustað fyrir fatlaða, sem þeir vinna að í ákveðinn tíma. Allur hópurinn skipuleggur síðan og sér um framkvæmd flóamarkaðar, þar sem seldur verður notaður fatnaður til styrktar góðgerðarmálum.

Nemendur munu fá ýmiss konar fræðslu, bæði um Rauða krossinn og mannúðarmál, fordóma og mismunun gagnvart minnihluta hópum, auk þess sem þeir fengju fræðslu um þau sjálfboðaverkefni sem þau ynnu að. Í lok námskeiðs þurfa nemendur að skila dagbók eða ritgerð um verkefnið og skila til kennara.

Starfsmaður Árnesingadeildar og svæðisfulltrúi kynntu verkefnið fyrir nemendum skólans og virðist áhugi vera fyrir síkum áfanga. Á næstu vikum, þegar nemendur ákveða hvaða  áfanga þeir velja á vorönn 2008,  kemur svo í ljós hvort af þessu samstarfi milli Rauða krossins og skólans verður að þessu sinni.

Meðfylgjandi er mynd af  Ragnheiði Ágústsdóttur, starfsmanni Árnesingadeildar og Jóhönnu Róbertsdóttur svæðisfulltrúa Rauða krossins á Suðurlandi og Suðurnesjum við kynningu í skólanum.