Gleðidaganámskeið í Reykjanesbæ vel tekið

29. ágú. 2011

Suðurnesjadeild Rauða krossins bauð í sumar upp á námskeiðið Gleðidagar við góðar undirtektir jafnt frá börnum sem og eldri borgurum en markmiðið með námskeiðinu er að sameina eldri og yngri kynslóðir, virkja kraft beggja hópa og miðla þekkingu þeirra á milli.

Á námskeiðinu voru eldri borgarar í hlutverki leiðbeinenda og kenndu þeir börnunum m.a. að prjóna, hnútabindingar, gamla útileiki, skák, fánareglurnar og þjóðsögurnar. Farið var í vettvangsferðir og ber þar helst að nefna fjöruferð út á Garðskaga og heimsókn á Nesvelli þar sem krakkarnir sungu fyrir eldri borgara þjóðþekktar vísur og þótti takast einstaklega vel. Alls tóku 40 börn og eldri borgarar þátt á námskeiðinu og var almenn ánægja með hvernig til tókst og vonandi eru Gleðidagar komnir til að vera á Suðurnesjum.

Gleðidagar „hvað ungur nemur gamall temur“ hefur verið haldið hjá Rauða krossinum undanfarin þrjú sumur hjá nokkrum deildum félagsins en þetta er fyrsta námskeið Suðurnesjadeildar. Námskeiðið er fyrir 7-12 ára krakka og er þátttakendum að kostnaðarlausu.

 Eydís Eyjólfsdóttir skáti kennir börnunum að brjóta saman íslenska fánann.
 Hafsteinn Guðnason fyrrverandi skipstjóri kennir hnútabindingar, líklega pelastikk á þessari mynd.
 Herbert Árnason sýnir börnunum tréútskurðarverkin sín.
 Jón Eysteinsson fyrrverandi sýslumaður sýnir strákunum kuðung í fjöruferðinni á Garðskaga.
Herbert Árnason, Birna Zophaníasdóttir og Jónína Guðrún Einarsdóttir spila með börnunum á Nesvöllum.
 Sigríður Jóhannesdóttir fyrrverandi alþingismaður og kennari segir börnunum þjóðsögur.