Námskeið heimsóknavina í Árnesingadeild

16. feb. 2007

Námskeið fyrir heimsóknavini var haldið hjá Árnesingadeild 13.febr. sl.  Heimsóknavinir hafa verið starfandi á vegum deildarinnar um nokkurra ára skeið, en starfsemin farið mjög vaxandi á þessum vetri. Hópstjóri heimsóknavina er Ragnheiður Ágústsdóttir, starfsmaður Árnesingadeildar.

Svæðisfulltrúi setti námskeiðið og síðan sagði Ragnheiður Ágústsdóttir m.a. frá starfsemi heimsóknavina deildarinnar. Linda Ósk Sigurðardóttir, verkefnastjóri heimsóknavina, flutti fróðlegan fyrirlestur um þetta mikilvæga verkefni og síðan sagði Kristin Chadwick frá reynslu sinni af því að vera sjálfboðaliði og heimsóknavinur.

Þátttaka á námskeiðinu var mjög góð. Sumir höfðu áður fengið kynningu á verkefninu og þekktu því aðeins til hlutverks heimsóknavina, en aðrir voru að kynna sér þetta í fyrsta sinn. Allir voru áhugasamir og margar spurningar komu fram, enda sköpuðust mjög skemmtilegar umræður um málefnið.

Námskeiðinu lauk með hópavinnu þar sem „klípusögur” voru teknar fyrir og voru niðurstöður hópa fróðlegar og skemmtilegar og mikið hlegið. Flestir fóru því heim á leið með bros á vör eftir vel heppnað námskeið. Á næstunni býðst svo heimsóknavinum deildarinnar að sækja skyndihjálparnámskeið sér að kostnaðarlausu.