Skyndihjálparnámskeið í Hveragerði

22. jan. 2007

Hveragerðisdeild Rauða krossins stóð nýlega fyrir skyndihjálparnámskeiði í húsnæði deildarinnar að Austurmörk 7 í Hveragerði.

Námskeiðið, sem var 5 kennslustundir að lengd, var ágætlega sótt. Markmið með námskeiði sem þessu er að þátttakendur öðlist lágmarksfærni í að beita skyndihjálp og sálrænum stuðningi í neyðartilvikum.

Leiðbeinandi var Anna Margrét Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur sem kom námsefninu vel til skila á líflegan og skemmtilegan hátt. Að loknu námskeiði fá þátttakendur viðurkenningu fyrir að hafa setið námskeiðið. Mælt er með endurmenntun annað hvert ár til að rifja upp kunnáttuna.