Hveragerðisdeild - starfið á árinu

19. mar. 2012

Á umliðnu ári var nokkuð góð og fjölbreytt starfsemi í deildinni. Haldið var heimsóknavinanámskeið. Heimsóknavinahópstarf hefur eflst mikið og eru nú starfandi þrír mismunandi hópar; hópur sem heimsækir fólk í bænum, hópur sem fer og les fyrir fólk á elliheimilinu og annar hópur sem heimsækir fólk á elliheimilinu og syngur með heimilisfólkinu.

Heimsóknavinahóp hefur verið stjórnað af Hallbjörgu Þórhallsdóttur, sem nú lætur af störfum og er henni þökkuð heilladrjúg störf í þágu deildarinnar. Það er von mín að við fáum að njóta krafta hennar í sjálfboðastarfi deildarinnar á öðrum vettvangi. Við starfi Höllu tekur Guðlaug Christensen, er henni óskað velfarnaðar.

Mikið og gott starf er unnið við verkefnið föt sem framlag, þar koma margar konur saman í hverri viku og flokka og pakka fötum í poka sem eru send í verkefni Rauða krossins í Hvíta Rússlandi. Hópstjóri hópsins er Laufey Valdimarsdóttir.

Guðlaug Christensen hefur verið með opið hús deildarinnar tvisvar í viku eftir hádegi og með því unnið ómetanlegt starf og gert Rauða krossinn sýnilegri hér í Hveragerði. Guðlaug hefur líka verið með prjónahóp vikulega þar sem konur hafa hist og prjónað og rabbað saman. Hún hefur einnig gert margt annað fyrir deildina og vil ég færa henni þakkir fyrir allt þetta.

Neyðarvarnir -Neyðarvarnanefnd fór í skoðunarferð og heimsótti fjöldahjálparstöðvar í skólunum á Selfossi, Eyrarbakka, Stokkseyri, Þorlákshöfn og Hveragerði.

Framkvæmdir - Nú eru framkvæmdum við húsnæði deildarinnar nánast lokið. Skipt var um öll ljós á efri hæð en gömlu ljósin voru orðin hættuleg. Nú er aðeins eftir að koma fyrir brunastiga og laga brunaop.

Farin var vorferð með sjálfboðaliðana okkar. Að þessu sinni var farið í Borgarnes þar sem brúðusafnið var skoðað. Jólakaffi var haldið með hefðbundnu sniði. Vel mætt og vel heppnað.

Formaður fór með Jóhönnu Róbertsdóttur í heimsókn til Lionsmanna þar sem starfsemi Rauða kross Íslands var kynnt.

Tveir ungir menn frá Rauða hálfmánanum í Palestínu komu í heimsókn til deildarinnar. Örn og Ragnhildur fóru með þá í skoðunarferð um Hveragerði og nágrenni.

Tölvunámskeið fyrir sjálfboðaliða var haldið í húsnæði deildarinnar og var það vel heppnað .

Fræðslufyrirlestur - Deildir Rauða kross Íslands á Suðurlandi í samstarfi við kirkjur suðurprófastdæmis kvenfélög og verkalýðsfélög á Suðurlandi héldu fræðslufyrirlestur í safnaðarheimili Hveragerðiskirkju. Fyrirlesari var Lára Ómarsdóttir. Fyrirlesturinn kallar hún Hagsýni og hamingja.

Haldinn var fundur með sjálfboðaliðum. Gestur fundarins var Sigríður Klingenberg .

Breyting á stjórn - Eyrún Sigurðardóttir hefur ákveðið að hætta í stjórn og er henni þökkuð heilladrjúg störf með von um að hún komi aftur öflug þegar hún hefur fengið smá hvíld.

Haldnir voru 8 stjórnarfundir á árinu þar sem málefni deildarinnar voru rædd og afgreidd. Ég vil þakka meðstjórnendum mínum fyrir góð störf og einnig vil ég þakka öllum sjálfboðaliðum sem starfað hafa fyrir deildina fyrir þeirra störf.

Örn Guðmundsson – formaður.