Árnesingadeild - starfið á árinu

20. mar. 2012

Aðalfundur Árnesingadeildar Rauða kross Íslands var haldinn 7. mars 2012 á Selfossi. Í skýrslu fráfarandi formanns, Sveins Valgeirssonar, kom fram að starfsemin hefði verið með hefðbundnum hætti á árinu 2011. Námskeið voru vel sótt t.d. sóttu á annað hundrað manns námskeið í skyndihjálp og um 30 börn, 12 ára og eldri, sátu námskeiðið „Börn og umhverfi", þar sem áhersla er lögð á öryggi í umhverfi barnsins, skyndihjálp og slysavarnir.

Eitt af markmiðum Rauða krossins er að draga úr félagslegri einangrun og styrkja þróunarsamvinnu. Á árinu 2011 voru heimsóknarvinir deildarinnar vel á annan tug, en þeir heimsækja bæði einkaheimili og stofnanir. Prjónahópurinn er í miklum blóma, öflugur og dugmikill í fjáröflun fyrir félagið. Þá hefur hópur sjálfboðaliða tekið þátt í verkefninu „Föt sem framlag“ með því að hanna, prjóna og sauma fatnað og útbúa fatapakka fyrir nýfædd börn sem sendir eru til alþjóðlegrar þróunar- og neyðaraðstoðar.

Verkefnaáætlun 2012 – 2015 var lögð fram á aðalfundi og þar má sjá að framundan er öflugt starf með áherslu á fjölbreytt námskeiðahald. Boðið verður uppá námskeið í skyndihjálp og sálrænum stuðningi fyrir sjálfboðaliða, námskeið í skyndihjálp fyrir almenning og fyrirtæki, námskeiðið börn og umhverfi, námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra, neyðaraðstoð o.fl. Stutt skyndihjálparnámskeið getur gert þér kleift að bjarga mannslífi þegar mínútur skipta máli. Upplýsingar um starfsemi Rauða krossins má finna á raudikrossinn.is