Suðurnesjadeild - starfið á árinu

22. mar. 2012

Síðasta ár var í flestum atriðum keimlíkt þeim fyrri. Fataflokkun var á sínum stað en þar fer Árný fyrir einvala liði. Á síðasta ári var mikil aukning í sölu á fatnaði og nú er svo komið að þetta er að verða okkar aðal tekjulind. Á þessu ári er stefnt að breytingum á rekstrinum samkvæmt tilmælum frá stjórn Rauða kross Íslands með því að opna verslun sem rekin verður með svipuðu sniði og Rauðakrossbúðirnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar verður hver flík seld sér og pokasölu hætt. Reiknað er með að fataflokkunin verði áfram með svipuðu sniði og áður nema hvað pokasalan á föstudögum hættir, en áfram mun verða tekið við fötum í gámana okkar þau flokkuð í þrjá flokka: til sölu í versluninni, til sölu á flóamarkaði, sem reiknað er með að verði allt að fjórum sinnum á ári og sent í flokkunarmiðstöðina einsog áður. Vil ég hér með færa þeim í fataflokkuninni bestu þakkir fyrir sín störf.

Heimsóknavinir voru einnig á sínum stað með Diddu fremsta í flokki. Nokkur aukning var í þeim hópi nú í byrjun árs þegar haldið var námskeið fyrir heimsóknavini. Heimsóknavinir halda sína mánaðarlegu fundi og heimsækja sína gestgjafa með reglulegu millibili, sem getur verið breytilegt eftir óskum gestgjafa. Þeim er að sjálfsögðu þakkað óeigingjarnt starf.

Neyðarnefndin var á sínum stað með undirbúning fyrir þau verkefni sem upp kunna að koma, útköll voru nokkur á árinu flest tengdust uppákomum í flugi, þar sem við sendum teymi til sálrænnar aðstoðar í FLE. Veitt var aðstoð í vetur þegar Reykjanesbrautin lokaðist vegna ófærðar, opnaðar voru fjöldahjálpastöðvar í Akurskóla og Holtaskóla sem síðan færðust í húsnæðið okkar þar sem við gátum boðið dýnur til að hvílast á og smá hressingu. Stór flugslysaæfing var fyrirhuguð sl haust en henni var frestað til vors. Á árinu voru haldin námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra og einnig í sálrænum stuðningi haldin í samstarfi við Grindavíkurdeildina. Þess má geta að samstarf okkar og Grindavíkurdeildar hefur farið vaxandi á sl árum og er það vel. Fyrirliðar í neyðarnefndinni eru Karl Georg og Guðmundur Ingólfsson.

Fræðslunefndin var á sínum stað og hélt uppteknum hætti með fræðslu í skyndihjálp fyrir fyrirtæki, stofnanir og almenning. Um 300 þátttakendur komu á námskeið hjá deildinni sl ár. Ekkert námskeið var fyrir börn og umhverfi vegna slæmrar þátttöku. Rúnar Helgason fer fyrir fræðslunefndinni.

Engar framkvæmdir voru á húsnæði deildarinnar á liðnu ári, en gert er ráð fyrir framkvæmdum uppá allt að 1 milljón kr. á þessu ári, aðallega vegna breytinga fyrir verslunina sem áður var nefnd.

Ungmennastarf var með líflegasta móti á árinu og held ég að á engan sé hallað þegar að sagt sé að það megi fyrst og fremst þakka þeim starfsmönnum sem hér hafa verið vegna UFTA verkefnisins sem hefur verið í gangi síðustu tvö ár, en nú er það verkefni á enda og starfsemin alfarið komin í hendur sjálfboðaliða. Við erum með tvo aldurshópa hjá okkur og hefur verið nokkuð góð mæting í vetur sérstaklega hjá yngri hópnum. Jóna Fanny Holm er verkefnastjóri URKÍ.

Við höfum verið í samstarfi við Velferðasjóð Suðurnesja á árinu eins og fyrri ár og fyrir jólin var öllu því fé sem ætlað var í jólastyrk sett í Velferðasjóðinn og okkar skjólstæðingum beint þangað.

Við erum aðilar að rekstri Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum þar sem undirritaður hefur verið formaður stjórnar á þessu fyrsta heila starfsári smiðjunnar Starfið gengur vel og hafa nú þegar nokkrir þátttakendur smiðjunnar verið útskrifaðir og komnir í vinnu eða nám, við væntum  mikils af starfi Fjölsmiðjunnar í framtíðinni. En þess má geta að ársfundur Fjölsmiðjunnar verður haldinn 25. apríl nk. Og eru allir velkomnir tímasetning verður auglýst síðar.

Í maí sl. var aðalfundur Rauða krossins haldinn í Stapa hér í Reykjanesbæ. Þar komum við ansi mikið við sögu, sáum um makaferð, útveguðum fundarstjóra, Sigrúnu Árnadóttur sem stýrði þessum fundi, útveguðum tónlistaratriði og sáum um kvöldskemmtun fyrir fundarmenn og aðra gesti. Á fundinum fékk deildin viðurkenningu fyrir UFTA verkefnið og 1 sjálfboðaliði úr deildinni hún Kristín Gestsdóttir fékk viðurkenningu fyrir langt og gott starf í þágu Rauða krossins. Það var mikil ánægja með okkar framlag til fundarins og vil ég hér með færa öllum sem lögðu hönd á plóg fyrir frábært starf.

Sl. sumar var farið af stað með verkefni sem kallast „Gleðidagar“. Það gengur út á að fá eldra fólk til að miðla til þeirra sem yngri eru. Guðmundur sem var í UFTA verkefninu sá um framkvæmdina og fórst það vel úr hendi einsog annað sem hann sá um fyrir okkur, alls komu 26 börn og langt í annað eins af fullorðnu fólki að þessu verkefni og undu sér við leik og fræðslu um handverk og afreyjingu fyrri tíma, en þessi námskeið stóðu yfir í eina viku í senn en haldin voru tvo námskeið.

Um þessar mundir er Landsfélagið að fara í gegnum mikla skoðun og er hugmyndavinna í gangi til að sporna við versnandi fjárhag félagsins, en mikil lækkun er á tekjum félagsins frá Íslandsspilum og halli hefur verið á rekstri landsskrifstofu og all nokkrum deildum sl ár. Það er skoðun sérfræðinga, fjármálastjóra félagsins og gjaldkera að ef ekki verið gripið til róttækra aðgerða strax muni það leiða til þess að sjóðir félagsins verði upp urnir innan fárra ára. Nú liggur fyrir róttæk breyting á skiptingu kassatekna og einnig gert ráð fyrir að tekjur af fatasölu renni að hluta til í sameiginlegan sjóð og skipt milli deilda eftir ákveðnu fyrirkomulagi. Það er þó ánægjulegt að segja frá því hér að Suðurnesjadeild hefur kappkostað að leggja fram hallalausa fjárhagsáætlun og að sama skapi hefur tekist að fara eftir henni og gott betur einsog fram kemur í ársreikningi sem liggur frammi. Einnig er í umræðunni að taka upp svipað fyrirkomulag og hefur tíðkast hér hjá okkur og kjósa verkefnastjóra til fyrirfram ákveðins tíma til að hafa starfið skilmerkilegra og að forystufólk í verkefnum geti gengið út og eðlileg endurnýjun eigi sér stað.

En talandi um endurnýjun þá er komið að þáttaskilum hjá mér því ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér sem formaður Suðurnesjadeildar eftir 10 ár sem formaður. Það er skoðun mín að ekki sé hollt að sitja of lengi í starfi sem þessu eða öðrum stjórnarstörfum, við þurfum alltaf að huga að eðlilegri endurnýjun í forustunni til að festast ekki í einhverju fari sem er kannski ekki það besta fyrir hreyfinguna eða skjólstæðinga hennar. Lög hreyfingarinnar gera ráð fyrir að stjórnarfólk geti að hámarki setið í átta ár samfellt, formaður getur þó setið í 12 ár, en það er of langur tími fyir minn smekk og mun ég því víkja sæti sáttur við Guð og menn eins og sagt er.

Ég hef að mestu átt sérlega ánægjulegan tíma þó að stundum hafi andað ja við skulum segja svölu, þegar ég tók við sem formaður vorum við í all nokkurri fjárhagskreppu vegna kaupa á húsnæði, en í dag eigum við heldur of feitan sjóð ef eitthvað er en starfið samt í miklum blóma, þess vegna get ég staðið upp sæll og glaður.

Ég er samt ekki að segja skilið við félagið ég mun áfram starfa fyrir fræðslunefnd og jafnvel eitthvað fleira ef til mín verður leitað.

Ég vil að lokum þakka ykkur öllum og öllum hinum sem ég hef starfað með hér sl 10 ár kærlega fyrir samstarfið og vona að starfið megi blómstra áfram sem fyrr.

Rúnar Helgason formaður Suðurnesjadeildar