Hjartahlýja

30. mar. 2012

Margrét Bjarnadóttir er ein af mörgum öflugum sjálfboðaliðum hjá Árnesingadeild Rauða krossins í verkefninu Föt sem framlag. Hún saumar allt mögulegt upp úr notuðum fötum, sem fer í ungbarnapakka m.a  til Hvíta Rússlands.

En svo kom að því að skipta þurfti um hnífa í saumavélinni hennar Margrétar og var hún því send til Bjarna í Juki. Þegar Bjarni var búinn að gera við vélina endurgjaldslaust ákvað hann að gefa Margréti nýja vél því hann vill leggja sinn skerf til þessa mikilvæga verkefnis. Þess má geta að Bjarni hefur gefið henni talsvert af tvinna á vélina sem nýtist vel.

Konurnar í verkefninu Föt sem framlag eru ekkert venjulega hugmyndaríkar og ráðdeildarsamar. Þær endurnýta alls konar efni og meðal annars búa þær til nærbuxur úr notuðum teygjulökum, buxur úr notuðum jogging- og velúrgöllum og alls konar efni eru notuð með handklæðum í buxur. Ein úr hópnum prjónar sokka og vettlinga fyrir Rauða krossinn því hún er löngu búin að metta markað stórfjölskyldunnar.

[Mynd 1]