Unglingar á Selfossi styrkja Rauða krossinn

10. apr. 2012

Unglingar í 8, 9 og 10. Bekk á Selfossi létu söfnunarfé frá árlegri Góðgerðaviku renna til Árnesingadeildar Rauða krossins.

Í Góðgerðavikunni, sem haldin var 30. janúar til 3. febrúar, gerðu unglingarnir góðverk og söfnuðu peningum með því að halda þrjú böll fyrir börn á grunnskólaaldri. Markmið vikunnar var að hjálpa öðrum og gleðja bæjarbúa, en ekki síst að vekja athygli á hve  góða unglinga við eigum. Þá var lögð áhersla á að kynna gildi félagsstarfa og sjálfboðaliðastarfa fyrir unglinga.

Unglingarnir kjósa sjálfir hverja á að styrkja og hafa miklar skoðanir á því. Lýðræðisleg niðurstaða að þessu sinni var sú að styrkja Árnesingadeild Rauða krossins og nam styrkurinn 63.000 krónum. Árnesingadeild vill koma á framfæri kæru þakklæti fyrir styrkinn og er stolt af því að eiga svona hugulsama og hjartahlýja unglinga á Selfossi.