Vetrarstarf hafið hjá Vestmannaeyjadeild

20. sep. 2012

Vestmannaeyjadeild Rauða krossins hafði í ýmsu að snúast í sumar. Í vor var haldið námskeiðið „Börn og umhverfi“. Að þessu sinni var óvenju fámennt á námskeiðinu því aðeins 11 ungmenni mættu til leiks.Kennarar á námskeiðinu voru Ragna Sigríður Jónsdóttir leikskólakennari og Lóa Skarphéðinsdóttir hjúkrunarfræðingur.

Gestakomur
Með tilkomu Landeyjarhafnar er lítið mál fyrir íbúa fasta landsins að skreppa yfir sundið og skoða perlu Íslands „Heimaey“. Í sumar komu góðir grannar, 33 sjálfboðaliðar Rauða krossins í Hveragerði.  Eftir kaffiveitingar fór Bryndís Gísladóttir stjórnarmaður Vestmannaeyjadeildar með hópnum í  tveggja tíma rútuferð um Heimaey og fræddi ferðafólkið um sögu og landkosti Vestmannaeyja, en Bryndís er mikil fróðleiksbrunnur og leiðsögumaður í ferðaþjónustinni og starfar sem leigubílstjóri. Veðrið lék við Hvergerðingana þennan dag og voru þau gríðalega ánægð með heimsóknina.

Þann 29. ágúst kom 16 manna hópur frá Vin, athvarfi Rauða krossins í Reykjavík fyrir fólk með geðraskanir. Þau dvöldu í Eyjum í tvo daga. Vestmannaeyjadeild tók á móti hópnum þegar þau komu að landi með Herjólfi og fylgdi þeim að gistiheimilinu. Síðan var hópnum boðið upp á hádegisverð í Arnardrangi, þar sem formaður sagði fólkinu frá sögu hússins og lítillega frá mannlífinu í Eyjum, eldgosinu og uppbyggingu eftir gosið. Hópurinn fór síðan í rútuferð um Heimaey en seinni daginn var farið í bátsferð umhverfis Heimaey. Heimsóknin frá gestum Vinjar var vel heppnuð og báðir aðilar mjög ánægðir með samskiptin.

Vetrarstarfið
Vetrarstarfið hófst hjá Vestmannaeyjadeildinni með því að konurnar í verkefninu Föt sem framlag hittust í byrjun september. Þann dag pökkuðu þær 48 ungbarnapökkum og flokkuðu og gengu frá miklu magni af fatnaði inn í skápana í Arnardrangi. Það er mikill hugur í Rauða kross konunum, eins og alltaf og fer vetrarstarfið vel af stað. Þeir sem áhuga hafa á að starfa með deildinni hafi samband á vestmannaeyjar@redcross.is.

Á myndinni er afrakstur sumarsins hjá 81 árs gamalli konu, Þóreyju Björgvinsdóttur, en hún er mjög virk í hópnum föt sem framlag og kom með yfir 30 peysur, mikið af sokkum, hosum og vettlingum og teppum.