Ellefu ára stúlka í Reykjanesbæ hlaut viðurkenningu á 112 daginn

12. feb. 2013

Það urðu fagnaðarfundir á mánudaginn 11. febrúar þegar Anika Mjöll Júlíusdóttir og Guðrún María Geirdal hittust í Akurskóla í Innri-Njarðvík. Aníka, sem er 11 ára, hlaut viðurkenningu frá Rauða krossinum á 112 daginn fyrir að hafa með snarræði sínu og réttum viðbrögðum bjargað lífi Guðrúnar fyrir tæpu ári síðan.

Atvikið átti sér stað í febrúar 2012 í Vatnaveröldinni í Reykjanesbæ. Anika var á sundæfingu þegar hún sá allt í einu barn sem var að sökkva til botns í djúpu lauginni. Hún hélt eitt augnablik að þetta væri dúkka, en áttaði sig brátt á því að þetta væri lítil stúlka og kafaði strax eftir henniog kom henni upp á bakkann.

Anika sá að barnið náði ekki andanum og sló í bakið á því, þar til það náði djúpum anda og í sömu andrá komu þjálfarinn og starfsfólk sundlaugarinnar að.  Um ótrúlegt afrek er að ræða, og þykir Aníka hafa sýnt fádæma fumleysi og yfirvegun við þessar aðstæður og hafa brugðist hárrétt við þrátt fyrir ungan aldur.

Móðir Guðrúnar Maríu, Sigrún Hanna Sveinsdóttir, er Aníku ákflega þakklát fyrir lífgjöfina.  Hún segir með ólíkindum hversu snögg börn geta verið að slíta sig frá foreldrum og komast langt á augnabliki.  Það hafi orðið Guðrúnu til lífs að Aníka var á réttum stað á réttum tíma, og tekið allar réttar ákvarðanir þrátt fyrir ungan aldur.  

Stúlkurnar tvær hafa hist áður eftir atvikið, og voru að vonum glaðar að hittast aftur við þessa ánægjulegu athöfn í Akurskóla þar sem Rauði krossinn á Suðurnesjum veitti Aníku viðurkenningu fyrir hetjudáðina.
 


Fulltrúar Rauða krossins við afhendingu viðurkenningarinnar með Aniku og Guðrúnu. Sólveig Ólafsdóttir upplýsingafulltrúi, Guðbjörg Ágústa Sigurðardóttir formaður Suðurnesjadeildar, Stefanía Hákonardóttir starfsmaður Suðurnesjadeildar og Ólöf Sigfúsdóttir sjálfboðaliði heimsóknavinaverkefnis Suðurnesjadeildar.
 

Anika Mjöll Júlíusdóttir var glöð að hitta Guðrúnu litlu sem er orðin ári eldri en þegar björgunin átti sér stað.