Buðu allri fjölskyldunni á skyndihjálparnámskeið

18. feb. 2013

Hjónin Hólmfríður Kjartansdóttir og Björn Gíslason voru flott á því og buðu allri fjölskyldunni á skyndihjálparnámskeið hjá Rauða krossinum í Árnessýslu.

Ákvörðunin var tekin eftir að Hólmfríður fór á skyndihjálparnámskeið á vegum Selfossveitna þar sem hún vinnur. Henni líkaði námskeiðið svo vel að henni fannst tilvalið að gefa öllum þeim sem henni þykir vænst um skyndihjálparnámskeið í afmælisgjöf.

Því fengu eiginmaðurinn, börn, tengdabörn og elstu barnabörnin gjafabréf á skyndihjálparnámskeið, alls 14 manns. Af því þetta var svo stór hópur var haldið einkanámskeið fyrir fjölskylduna, sem var mjög ánægð með góða kvöldstund í Rauða krossinum

Fulltrúar Rauða krossins í Árnessýslu fannst kvöldið ekki síður ánægjulegt, fyrir utan hversu frábær hugmynd það er að gjöf til þeirra sem fólki þykir vænst um.