Krakkar í Vestmannaeyjum útskrifast af Börn og umhverfi námskeiði

2. maí 2013

Námskeiðið Börn og umhverfi var haldið hjá Rauða krossinum í Vestmannaeyjum á sumardaginn fyrsta og því lauk í gær 1. maí.

Á námskeiðinu var farið yfir ýmsa þætti er varðar umgengni og framkomu við börn. Lögð var áhersla á umfjöllun um slysavarnir og algengar slysahættur sem er að varast í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Nemendur fengu að auki fræðslu og innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

Leiðbeinendur á námskeiðinu voru þær Ragna Kristín Jónsdóttir leikskólakennari og Lóa Skarphéðinsdóttir hjúkrunarfræðingur.

Námskeiðið var haldið í Arnardrangi húsi Rauða krossins í Vestmannaeyjum Í lok námskeiðsins afhenti formaður Rauða krossins öllum nemendum skyndihjálpartösku sem Tryggingamiðstöðin gaf á námskeiðið. Rauði krossinn færir Tryggingamiðstöðinni kærar þakkir fyrir hlýhug og góðan stuðning við þetta verkefni.