Skýrsla stjórnar Víkurdeildar Rauða krossins á Íslandi 2013-2014

11. mar. 2014

Aðalfundur Víkurdeildar árið 2013 var haldinn 26. febrúar á Halldórskaffi. Síðan þá hefur stjórnin haldið 8 bókaða stjórnarfundi. Auk þess hafa nokkur samskipti farið fram í tölvupósti.

Stjórnarfólk Víkurdeildar sótti námskeið um neyðarvarnir sem haldið var 1. mars í Víkurskóla.
Sveinn formaður og Ásthildur  meðstjórnandi sátu upprifjunarnámskeið um hlutverk í almannavarnaraðgerðum sem haldið var af Almannavarnarnefnd í  Leikskálum 13. mars.

Stjórnarmenn sóttu námskeið í sálrænum stuðningi sem haldið var á Kirkjubæjarklaustri í apríl.

Á vordögum voru rýmingarblöð vegna rýmingar Víkur í Kötluvá uppfærð og nýjum skráningarblöðum raðað í möppurnar. Þá tók formaður á móti fulltrúum frá Hveragerðisdeild, sýndi þeim aðstöðu okkar og kynnti fyrir þeim starfsemi deildarinnar.

Haldið var námseiðið Börn og umhverfi í Víkurskóla. Átta nemendur sóttu námskeiðið. Leiðbeinendur voru Guðlaug Guðmundsdóttir og Halla Ólafsdóttir.
Við vígslu á nýju húsnæði leikskóladeildar Víkurskóla færði Víkurdeild leikskólanum skyndihjálpartösku að gjöf. Sveinn formaður afhenti gjöfina fh. deildarinnar. 

Á hausdögum samþykkti deildin 25 þúsund króna styrk til neyðaraðstoðar í Sýrlandi. Þá sá formaður  um úttekt fjöldahjálpastöðva.

Fulltrúar Reykjavíkurdeildar heimsóttu formann okkar og óskuðu eftir vinasamstarfi við Víkurdeild. Stjórn Víkurdeildar hafnaði þeirri beiðni á þeirri forsendu að deildirnar ættu fátt sameiginlegt í starfsemi sinni þar sem Reykjavíkurdeild er rekin með starfsfólki en hjá Víkurdeild er eingöngu um sjálfboðaliðastarf að ræða.

Framkvæmdastjóri Rauða krossins boðaði stjórnarmenn á Suðurlandi til fundar í Hvolsvelli til að ræða starfsemi félagsins og áherslur á 90 ára afmælisári. Formaður og ritari sóttu þann fund.

Helga Þorbergsdóttir sótti námsekið fyrir leiðbeinendur í skyndihjálp í byrjun október. Námskeiðið var kostað af Víkurdeild.

Jóhanna Róbertsdóttir verkefnisstjóri kom til fundar við stjórnina 29. október og var þar farið yfir fjárhags- og framkvæmdaáætlun deildarinnar fyrir árið 2014.

Formaður sótti formannafund 2. nóvember í Reykjavík. Nokkur ágreiningur hafði verið innan félagsins og því tekist á um þau mál. Á fundinum lagði  formaður Víkurdeildar  fram tillögu að skipan nefndar sem hefði það hlutverk að fjalla  um ágreiningsmálin og koma með tillögu til úrlausnar og var tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Formaður, ritari og Helga Þorbergsdóttir sóttu fund á Kirkjubæjarklaustri þar sem kynntar voru áherslu í skyndihjálparátaki á afmælisárinu, skyndihjálparappið og efni sem notað verður til kynningar.

Víkurdeild og Héraðsbókasafnið í Vík  færðu i upphafi árs 2014 Landspítalanum bókagjöf sem samanstóð af ýmsum bókatitlum sem ekki var lengur þörf fyrir á bókasafninu.

Stjórn Víkurdeildar þakkar sjálfboðaliðum og öllum þeim sem komið hafa að starfi deildarinnar á stafsárinu fyrir samvinnu og hlýhug til deildarinnar.

Vík í febrúar 2014
Sveinn Þorsteinsson formaður