Skýrsla Víkurdeildar Rauðakrossins á Íslandi starfsárið 2012-2013

11. mar. 2013

Aðalfundur Víkurdeildar árið 2012 var haldinn 23. febrúar á Halldórskaffi.

Síðan þá hefur stjórnin haldið 10 bókaða stjórnarfundi.

Formaður hefur sótt formannafundi fyrir hönd deildarinnar og formaður og ritari voru fulltrúar Víkurdeildar á aðalfundi Rauða krossins 19. maí og framhaldsaðalfundi 13. október 2012.

Á aðalfundinum 19. maí var Helgu Halldórsdóttur ritara Víkurdeildar veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi sjálfboðið starf í þágu Rauða krossins.

Á aðalfundinum var lögum félagsins breytt og heitir félagið síðan Rauði krossinn á Íslandi. Í samræmi við það hefur nafni Víkurdeildar verið breytt og heitir nú Víkurdeild Rauða krossins á Íslandi.

Formaður og ritari mættu við útskrift elsta árgangs Leikskólans í Suður- Vík í maí og færðu útskriftarnemendum  reiðhjólahjálma að gjöf.

Þann 7. júní var haldinn fundur í Hvolsvelli fyrir fulltrúa deilda á Suðurlandi þar sem kynntar voru hugmyndir að nýju fyrirkomulagi á úthlutun framlaga til deilda og leitað var eftir hugmyndum frá fundarmönnum. Sveinn formaður, Helga ritari og Harpa gjaldkeri sóttu fundinn frá Víkurdeild.

Deildin tók þátt í söfnun á undirfötum sem fram fór í tengslum við Kvennahlaup ÍSÍ 16. júní.

Í saumar var komið fyrir fatagámi í Skógum til viðbótar við þá tvo gáma sem staðsettir eru í Vík. Magðalena Jónsdóttir hefur umsjón með gámnum í Skógum.

Skyndihjálparnámskeið var haldið í Vík 29. september. Námskeiðið sóttu 5 stjórnar- og varamenn frá Víkurdeild, 5 starfsmenn frá Hjallatúni og 4 frá deildinni á Kirkjubæjarklaustri. Námskeið fyrir leiðbeinendur heimsóknarvina var haldið á Kirkjubæjarklaustri 24. september og  það sóttu Ásthildur Lárusdóttir og Hafdís Eggertsdóttir frá Víkurdeild.  Námskeiði fyrir fjöldahjálparstjóra sem halda átti á haustdögum var frestað vegna lítillar þátttöku. Á haustdögum tók formaður út fjöldahjálpastöðvar Víkurdeildar eins og lög mæla fyrir um.

Gengið var til góðs þann 5. október. Ekki var gengið í hús þar sem söfnunin bar upp á Regnbogahátíð okkar Mýrdælinga. Stjórnarfólk var á fjölförnum stöðum í þorpinu síðari hluta dags, sjálfboðaliði var í Arionbanka á afgreiðslutíma og söfnunarbaukur var á Regnbogamarkaðnum á laugardeginum.

Þann 22. október kom Jóhanna Róbertsdóttir fulltrúi Rauðakrossins á fund stjórnar og flutti fræðsluerindi um störf og skyldur stjórnarmanna og í framhaldinu var farið yfir áætlun deildarinnar fyrir árið 2013.
Heimsóknavinaverkefnið var áfram í gangi á starfsárinu þar sem m.a voru starfandi bílavinir og spilavinir svo eitthvað sé nefnt.

11. febrúar 2013 tók deildin þátt í 112 deginum í samvinnu við Björgunarsveitina Víkverja og Slökkvilið Mýrdalshrepps. Opið hús var í húsnæði Víkverja seinni part dags þar sem félögin kynntu starfsemi sína og buðu upp á kaffisopa og spjall. Þennan dag voru ennfremur útskrifaðir nemendur í Víkurskóla sem sóttu námskeiðið Börn og umhverfi sem var samstarfsverkefni Víkurskóla og Víkurdeildar. Fulltrúar stjórnar mættu við útskriftina og afhentu nemendum viðurkenningar.

Stjórn Víkurdeildar Rauða krossins á Íslandi þakkar þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem komið hafa að starfi deildarinnar á starfsárinu með von um að deildin verði áfram starfrækt með kraftmiklum sjálfboðalinum á komandi starfsárum.

Vík  febrúar 2013
Fh. Stjórnar