Aðalfundur Hveragerðisdeildar vel sóttur

18. feb. 2015


Aðalfundur Hveragerðisdeildar Rauða krossins var haldinn 17. febrúar. Fjölmenni var á fundinum, enda margir virkir sjálfboðaliðar hjá deildinni.
Fram kom í skýrslu stjórnar að tvö megin verkefni sjálfboðaliða eru heimsóknavinir og Föt sem framlag og ganga þau vel. 

Verkefni heimsóknavina eru heimsóknir til einstaklinga í heimahúsum, heimsóknavinir lesa fyrir heimilisfólk á Dvalarheimilinu Ási og síðast en ekki síst er það sönghópur heimsóknavina sem syngur með heimilisfólki á Ási. Sönghópurinn hefur farið stækkandi  og er mikil ánægja meðal þeirra sem sungið er með og einnig sjálfboðaliða sem taka þátt.

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag hittast vikulega og útbúa fatapakka sem sendir eru til Hvíta Rússlands. Þegar föt sem framlag hópurinn hittist er einnig opið hús fyrir þá bæjarbúa sem langar að kíkja við í spjall og kaffisopa og hefur það verið vel sótt. 

Á fundinum færði deildin leikskólunum Undralandi og Óskalandi skyndihjálpartöskur, Hjálpfús DVD disk og skyndihjálparveggspjöld til að hengja upp í leikskókunum. Sesselja Ólafsdóttir leikskólastjóri í Undralandi tók við gjöfunum fyrir hönd beggja leikskólanna.

Á aðalfundinum var Helgi Kristmundsson kosinn nýr formaður, en Örn Guðmundsson gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

[Mynd 1]

Á myndinni eru Örn Guðmundsson, fráfarandi formaður og Helgi Kristmundsson nýr formaður, ásamt Sesseljur Ólafsdóttur, sem tók við gjöfunum fyrir hönd leikskólanna