• IMG_0814_480

Sjálfboðaliðagleði Rauða krossins í Kópavogi

12. jan. 2016

 Í gær hélt Rauði krossinn upp á alþjóðadag sjálfboðaliðans sem er 5. desember. Gleðin frestaðist vegna óveðurs í desember en sjálfboðaliðar létu það ekki á sig fá og mættu hressir og kátir í gærkvöldi.

 Um 60 manns mættu og var mikið hlegið og haft gaman. Sigmundur Ernir byrjaði kvöldið á því að lesa upp úr nýrri bók sinni, Munaðarleysinginn. Síðan gæddi fólkið sér á ljúffengum veitingum og naut þess að spjalla saman á meðan snjónum kyngdi niður fyrir utan.

 Eins og áður voru veittar viðurkenningar til sjálfboðaliða. Að þessu sinni voru veittar þrjár viðurkenningar en þær hlutu:

 Bergdís Rósantsdóttir, hópstjóri yfir verkefninu Alþjóðlegir foreldrar. Bergdís hefur lengi verið hópstjóri yfir verkefninu og hefur séð um verkefnið að mestu leiti. Hún mætir vikulega á samverustundir, setur upp og gengur frá, einnig sér hún um skipulagningu og að útvega kynningar fyrir foreldrana.

Sesselja Þórðardóttir, umsjónarmaður fataúthlutunar. Sesselja hefur séð algjörlega um fataúthlutun þangað til henni var lokað núna í nóvember.

Sjálfboðaliðar í Rauðakrossbúðinni í Mjódd. Sjálboðaliðarnir í Mjódd fengu viðurkenningu fyrir samheldni og frumkvæði að því að breyta búðinni. Fyrir að gera hana að betri vinnustað og betri verslun. Þær Þuríður og Sigrún, sjálfboðaliðar í Mjóddinni, tóku við viðurkenningunni fyrir hönd hópsins.

Eftir að viðurkenningar höfðu verið veittar mætti Sigga Kling á svæðið og skemmti fólkinu eins og henni einni er lagið. Það var mikið hlegið og kvaddi fólk með bros á vör.

Við viljum þakka öllum fyrir frábært kvöld. Það er alltaf jafn gaman þegar þessi glæsilegi hópur sjálfboðaliða kemur saman! Án þessa flotta hóps væri starf okkar ómögulegt.