Rauði krossinn tók þátt í Bergrisanum

25. mar. 2006

 

Starfsstöð Rauða krossins í Samhæfingarstöð almannavarna.

Víkurdeild og Klausturdeild Rauða kross Íslands tóku þátt í almannavarnaæfingunni Bergrisanum í Vestur-Skaftafellssýslu í dag. Æfingin er lokahnykkurinn í gerð nýrra viðbragðs- og rýmingaráætlana fyrir áhrifasvæði eldgosa, jökulhlaupa og gjóskufalls frá Mýrdals- og Eyjafjallajöklum. Eitt af stærstu verkefnum Bergrisans er rýming íbúðarhúsnæðis á áhrifasvæði Kötlu en einnig er látið reyna á alla þætti áætlana sem lúta að viðvörunum til íbúa, rýmingaráætlun, umferðar- og fjarskiptaskipulags, boðunaráætlun, samhæfingu o.fl.

Rauða kross deildirnar sinna mikilvægum þætti í áætluninni en allir íbúar á rýmingarsvæðinu eiga að mæta í fjöldahjálpar- og skráningarstöðvar til skráningar. Opnuð var skráningarstöð í leikskólanum Syðri-Vík í Vík þar sem yfir 130 manns voru skráðir og fjöldahjálparstöð í barnaskólanum á Kirkjubæjarklaustri þar sem 80 voru skráðir. Allir íbúar svæðisins voru hvattir til að taka þátt í æfingunni til að gera hana sem raunverulegasta og gekk það vel. Í fyrsta sinn var skráð inn í svokallað DIR kerfi sem er það skráningarkerfi sem notað verður í hópslysum og rýmingum í framtíðinni og gekk sú vinnsla vel.

Landsskrifstofa Rauða krossins tók einnig þátt í æfingunni og voru fulltrúar í Samhæfingarstöð almannavarna og eins var Hjálparsíminn 1717 virkjaður, en hefur hann því hlutverki að gegna í áætluninni að veita íbúum almennar upplýsingar um rýmingar s.s. að beina fólki í réttar fjöldahjálparstöðvar. Tekið var við fjölmörgum símtölum frá fólki sem leitaði eftir upplýsingum um ættingja og vini og fulltrúar landsskrifstofunnar í Samhæfingarstöðinni æfðu úrvinnslu skráningar, upplýsingagjafar og aðra þætti sem upp komu í fjöldahjálpinni.

Æft verður í Rangárvallasýslu á morgun, en ef um raunverulegan atburð væri að ræða væru áætlanir beggja svæða virkjaðar í einu þar sem ekki er hægt að segja fyrir um í upphafi hvar hlaupið mun koma niður undan jökli.