Hugulsamir nemendur Flóaskóla

14. des. 2005

 

Nemendur 5. og 6. bekkja Flóaskóla ásamt Nirði Helgasyni svæðisfulltrúa Rauða krossins.

Nemendur í 5. og 6. bekkjum Flóaskóla í Villingaholtshreppi héldu söfnun og gáfu Rauða krossinum 13.100 kr. Vilja krakkarnir að peningunum verði varið til að aðstoða fólk innanlands fyrir jólin.

Upphaf söfnunarinnar má rekja til þess að einn nemandi skólans Jón Gautason vann til verðlauna í myndasamkeppni. Hann bauð bekkjarfélögum sínum fyrst á Selfoss í skemmtiferð, en þegar afgangur varð af verðlaununum eftir ferðina kviknaði hugmynd hjá Jóni um að gefa Rauða krossinum þá.

Bekkjarfélagar Jóns ásamt honum bættu svo um betur og settu í gang söfnun og söfnuðu alls 13.100 krónum. 

Njörður Helgason svæðisfulltrúi Suðurlands og Suðurnesja heimsótti þennan duglega og áhugasama hóp á dögunum og tók við peningunum.

?Það er ánægjulegt að fá fyrir hönd Rauða kross Íslands að heimsækja duglega krakka eins og Jón og félaga hans í Flóaskóla,? sagði Njörður.

?Þessir krakkar eru greinilega tilbúnir til að láta gott af sér leiða í þágu fólks sem þarf á hjálp að halda. Þau voru öll áhugasöm um starf Rauða krossins.?

„Það var gaman þegar þeim var sagt frá tilurð Rauða krossins og komið inn á söguna af stofnanda Rauða krossins Henry Dunant og orrustunni við Solferino. Þá kom ein ung stúlka úr hópnum með verkefnabókina sína og spurði" er þetta ekki maðurinn? Jú mikið rétt.? Stúlkan var að vinna verkefni um Henry Dunant og Rauða krossinn í vinnubókina sína,? sagði Njörður. ?Svona heimsóknir gefa mikið.?

Krakkarnir í 5. og 6. bekkjum Flóaskóla ætla ekki að láta staðar numið eftir þetta átak þeirra heldur er stefnt á að setja í gang söfnun eftir áramótin og safna þá til verkefna erlendis.