Flóamarkaður hjá sjálfboðaliðum Árnesingadeildar

Njörð Helgason

8. des. 2005

Ánægðir viðskiptavinir á flóamarkaðnum.

Góðar vörur á góðu verði. Það var gestkvæmt í húsnæði Rauða kross Íslands Árnesingadeildar á Selfossi föstudaginn 2. desember þegar sjálfboðaliðar deildarinnar héldu flóamarkað. Á flóamarkaðnum var gott úrval af fatnaði frá fataflokkun Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, fatnaður fyrir bæði kynin á öllum aldri.

Fólk keypti innkaupapoka á eitt þúsund krónur. Í pokana gat fólk sett fatnað eins og í þá komst. Kaupendum fannst þetta góð leið til verslunar og nýttu sér hana vel.

Sjálfboðaliðar Árnesingadeildarinnar voru ánægðir með árangur flóamarkaðarins og stefna á að halda markað aftur fyrir næstu jól.

?Með því að opna húsið opnum við starfsemi deildarinnar fyrir fólki hér á starfssvæði hennar,? sagði einn sjálfboðaliðinn.

Auk fatnaðar voru seldar vatnsflöskur til styrktar Pakistan og skyndihjálpartöskur Rauða krossins. Alls söfnuðust 41.000 krónur og rennur allur ágóði óskiptur til hjálparstarfa Rauða krossins í Pakistan.

Viðskiptavinum sjálfboðaliðanna fannst vel til fundið að halda flóamarkað. Hann væri bæði til styrktar góðu málefni og hægt væri að gera góð kaup á honum.