Í minningu Hjörleifs Ingólfssonar

6. nóv. 2006

Kær vinur og félagi okkar í Rauða krossi Íslands. Hjörleifur Ingólfsson sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður var jarðsettur í heimabæ sinum Keflavík síðastliðinn fimmtudag.

Hjörleifur var dugmikill og góður félagi í Rauða krossi Íslands. Hann færði dug og gleði í raðir okkar sem störfuðum með honum í ýmsum verkefnum Rauða krossins bæði á heimavelli í Suðurnesjadeild Rauða kross Íslands, í svæðissamstarfi Rauða kross deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum og í starfi félagsins á landsvísu.

Það er alltaf mikils virði fyrir þá sem koma til starfa í félagsskap, sama hvers konar starf fer þar fram að kynnast reynsluboltum eins og Hjörleifi. Menn með reynslu í störfum þess félags sem við ætlum að vinna með, bæði til að geta leitað til og notið reynslu þeirra sem starfað hafa um árabil og ekki síður til að sjá að það er þess virði að taka þátt í starfseminni, þegar við sjáum að fólk starfar árum saman að málefni félagsins.