Svæðisfundur deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum

19. okt. 2006

Svæðisfundur deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum var haldinn á Kirkjubæjarklaustri þann 8.okt. Þátttaka var góð og fundurinn málefnanlegur. Í skýrslu formanns, Guðfinnu Bogadóttur, kom fram að fjölbreytt starfsemi var á árinu, en þar bar hæst þátttaka í neyðarvarnaæfingunni Bergrisanum.

Fulltrúar allra deilda héldu stutta tölu, þar sem fram kom að hvaða verkefnum deildirnar eru að vinna. Verkefnin eru fjölbreytt og mörg en staðsetning deildanna getur haft áhrif á einstök verkefni, eftir því hver þörfin er á hverjum stað. Allar deildir bjóða uppá heimsóknarþjónustu, utan ein, en þar er verið að skoða málið. 

Gestir fundarins voru Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, sem flutti fyrirlestur undir yfirskriftinni „Hvar þrengir að ?” og Ómar Kristmundsson formaður Rauða kross Íslands, sem ræddi um endurskoðun á stefnu félagsins. Að loknum erindum þeirra var fundarmönnum skipt í vinnuhópa til að ræða málefnin.

Meðal þess sem rætt var á fundinum var vinadeildasamstarf deilda á svæðinu. Gert er ráð fyrir að á næsta ári ljúki samstarfi við deildina í Serbíu og því tímabært að finna nýja vinadeild. Nefnd mun á næstu mánuðum skoða þá möguleika sem koma til greina í því sambandi og er stefnt að því að þeirri undirbúningsvinnu ljúki á árinu.

Ákveðið var að gera átak í því að kynna deildirnar á svæðinu í samstarfi við héraðsfréttablöð. Verður það gert í tiltekinn tíma þannig að í blöðunum verða vikulega birtir pistlar þar sem sagt verður frá starfsemi einstakra deilda, svæðissamstarfinu og öðru því sem ástæða þykir til.

Allar deildir á svæðinu, átta að tölu, eiga fulltrúa í svæðisráði og skiptast deildir á formennsku. Fráfarandi formaður ráðsins er Guðfinna Bogadóttir úr Grindavíkurdeild, en nýr formaður til eins árs er Svandís Birkisdóttir úr Hveragerðisdeild.

Á haustdögum var ráðinn nýr svæðisfulltrúi, Jóhanna Róbertsdóttir, í stað Njarðar Helgasonar sem hætti eftir áralangt starf. Skrifstofa svæðisins var þá flutt úr húsnæði Árnesingadeildar á Selfossi í húsnæði Hveragerðisdeildar, að Austurmörk 7 í Hveragerði.