Brotist inn í húsnæði Hveragerðisdeildar

24. okt. 2006

Brotist var inn í húsnæði Hveragerðisdeildar Rauða krossins aðfaranótt mánudags. Munum að verðmæti nokkur hundruð þúsund krónum var stolið, meðal annars tveimur fartölvum, skjávarpa, tveimur myndavélum, símatæki, Playstation leikjatölvu og peningaveski. Svæðisskrifstofa Rauða krossins á Suðurlandi og Suðurnesjum er í sama húsi en þaðan var engu stolið.

Tilkynnt var um innbrotið til Lögreglunnar á Selfossi um hádegi í gær. Enn er enginn grunaður um innbrotið en lögreglan vinnur að rannsókn málsins.

Eigandi fartölvunnar sem stolið var, háskólanemi á þrítugsaldri, saknar tölvunnar og þeirra gagna sem inni á henni voru og tengjast verkefnum sem hann hefur unnið að.

Lögreglan á Selfossi biður alla þá sem upplýsingar geta veitt um málið að gefa sig fram eða hringja í síma 480 1010.