Efling heimsóknarþjónustu á Suðurlandi og Suðurnesjum

6. des. 2006

Hjá deildum Rauða krossins á Suðurlandi og Suðurnesjum er í gangi sérstakt átak til að efla starfsemi heimsóknavina. Þetta er gert með kynningu á verkefninu, bæði meðal sjálfboðaliða og annarra félagsmanna Rauða kross deilda og einnig meðal annarra félagasamtaka og almennings. Haldnir hafa verið kynningarfundir og hefur þátttaka og undirtektir verið góðar. 

Þann 22. nóvember var kynning í Vík í Mýrdal og var þátttaka góð, þrátt fyrir leiðinlegt vetrarveður og erfiða færð. Tveir sjálfboðaliðar, annar frá Árnesingadeild og hinn frá Rangárvallasýsludeild, sögðu frá reynslu sinni af því að vera heimsóknavinir. Fundarmenn sýndu málefninu áhuga og sköpuðust ágætar umræður og í kjölfar kynningarinnar verður stefnt að námskeiði fyrir heimsóknavini.

Rauða kross deild Vestmannaeyja stóð fyrir námskeiði fyrir heimsóknavini mánudagskvöldið 27. nóvember. Námskeiðið sóttu bæði starfandi heimsóknarvinir og aðrir áhugasamir. Þátttakendur sýndu áhuga á að efla starfsemina og voru umræður líflegar og skemmtilegar. 

Fleiri heimsóknavinanámskeið eru á döfinni og verða þau auglýst jafnóðum og þau hafa verið dagsett.