Fjöldahjálparstjórnanámskeið í Vestmannaeyjum

22. nóv. 2006

Vestmannaeyjadeild Rauða krossins stóð fyrir námskeiði fyrir fjöldahjálparstjóra í Arnardrangi, glæsilegum húsakynnum deildarinnar, um síðustu helgi.

Á námskeiðinu, sem var mjög vel sótt, voru þátttakendur bæði reyndir sjálfboðaliðar og einnig nýliðar í fjöldahjálp. Auk þátttakenda á námskeiðinu, komu nokkrir heimamenn og hlýddu á fyrirlestra um almannavarnir og skipulag þeirra.

Afar fróðleg og skemmtileg mynd um Vestmannaeyjagosið var sýnd. Þar kemur fram hve vel Rauði krossinn bregst við í neyð og lýsir hún hvað félagið átti stóran þátt í að aðstoða íbúa eyjarinnar þegar þeir þurftu á því að halda í gosinu og lengi á eftir. Mátti margt af því læra.

Fyrirlestra á námskeiðinu fluttu auk Jóns Brynjars Birgissonar frá Rauða krossinum, heimamennirnir Karl Gauti Hjaltason sýslumaður í Vestmannaeyjum, Jóhannes Ólafsson yfirlögregluþjónn og Hermann Einarsson formaður deildarinnar.