Deildir ljúka aðalfundastarfi

27. mar. 2007

Aðalfundum deilda Rauða krossins á Suðurlandi og Suðurnesjum er nú lokið. Deildir á svæðinu eru átta talsins, fimm á Suðurlandi, tvær á Suðurnesjum og ein í Vestmannaeyjum. Ekki urðu miklar breytingar í stjórnum deilda, þó undantekningar hafi verið þar á.

Á fundum kom skýrt fram hve fjölbreytt starfsemin er. Sum verkefni eru þau sömu hjá öllum deildum og má þar nefna, skyndihjálp, neyðarvarnir og neyðaraðstoð, en önnur verkefni geta verið mismunandi eftir áherslum á hverjum stað. 

Starfsemi heimsóknavina er verkefni sem lögð var áhersla á að efla í vetur. Það var gert með fjölmörgum fundum, kynningum og námskeiðum. Víða býr fólk við félagslega einangrun, fólk á öllum aldri og báðum kynjum, og sinna heimsóknavinir mikilvægu hlutverki við að rjúfa þá einangrun. Sjö af átta deildum svæðisins eru með heimsóknavini að störfum og sú áttunda er að undirbúna verkefnið.

Fundirnir voru flestir með hefðbundnu sniði en þó hefur skapast sú hefð hjá Suðurnesjadeild að hafa tónlistaratriði til að lífga upp á dagskrána í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Að þessu sinni spiluðu fjórir ungir harmonikkunemar nokkur skemmtileg lög, fyrst hver fyrir sig og svo allir saman, ásamt leiðbeinanda sínum. Var mikill og skemmtilegur menningarbragur á fundinum vegna þessa innleggs Tónlistarskólans.