Handavinnukonur fræðast um hjálparstarfið í Afríku

11. apr. 2007

Hópur kvenna í Árnesingadeild Rauða krossins kemur saman vikulega yfir vetrarmánuðina þar sem þær prjóna og vinna ýmiss konar handavinnu sem síðan er seld á basar til styrktar hjálparstarfi Rauða krossins.

Fyrir stuttu heimsótti Helga Þórólfsdóttir sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins hópinn. Hún sagði frá því fjölbreytta starfi sem félagið vinnur í Afríku og var erindið bæði fróðlegt og skemmtilegt í máli og myndum. Helga sagði frá verkefni sem unnið er að í Sierra Leone þar sem meðal annars er verkleg kennsla og þjálfun svo sem í smíðum og saumaskap auk þess sem skóli er rekinn fyrir yngri nemendur.

Helga hafði meðferðis skemmtilegt efni úr batík sem unnið var af konum í Sierra Leone og  hún fékk afhent í heimsókn sinni þar nýverið. Helga afhenti Árnesingadeild efnið að gjöf og var því strax valinn staður í húsnæði deildarinnar. Ein úr hópi prjónakvenna tók listaverkið með sér heim og fékk aðstoð eiginmanns síns við að strengja það á ramma þannig að hægt væri að hengja það upp.