Tímamót í starfsemi Félagsmiðstöðvarinnar OZ

18. apr. 2007

Á dögunum var haldin samkoma í Félagsmiðstöðinni OZ í Vík í tilefni þess að formlegri þátttöku Víkurdeildar Rauða krossins í rekstrinum var hætt. Dagskrá kvöldsins var fjölbreytt og menningarleg. Ávörp voru flutt og síðan myndasýningar og tónlistaratriði í umsjá ungmenna. Mikið líf var í húsinu þetta kvöld, ungir sem aldnir tóku þátt, hver á sinn hátt, enda aðstaða öll til mikillar fyrirmyndar.
 
Upphaf félagsmiðstöðvarinnar má rekja til þess að vorið 2000 sendu nemendur grunnskóla Mýrdalshrepps hreppsnefndinni bréf þar sem farið var fram á að starfrækt yrði félagsmiðstöð í Mýrdalshreppi.

Í október 2004 var síðan gerður stofnsamningur um rekstur félagsmiðstöðvar fyrir ungt fólk milli Mýrdalshrepps og Rauða kross deildarinnar Í Vík og ákveðið að deildin kæmi að rekstrinum á árunum 2004-2006 með framlagi til kaupa á tækjum, búnaði og húsgögnum til rekstrarins.

Sigurður Hjálmarsson þáverandi formaður Víkurdeildar og Bárður Einarsson voru skipaðir í rekstrarstjórn OZ fyrir hönd deildarinnar. Forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar er Victor Guðmundsson æskulýðs- og tómstundafulltrúi hreppsins.

Samstarfsverkefnið hefur tekist mjög vel og er nú rekin félagsmiðstöð fyrir ungt fólk í Leikskálum. Þar hafa þau tækifæri til að koma að fjölbreyttu félagsstarfi, listum og leik, eins og glögglega mátti sjá á samkomunni. Áhersla er lögð á faglegt æskulýðs- og tómstundastarf, forvarnir og fræðslu, ásamt því að örva félagsþroska og jákvæð samskipti ungs fólks í vímulausu umhverfi. Sem dæmi um metnaðarfullt verkefni sem OZ hefði unnið að var að halda undankeppni söngkeppni Samfés 2007 þar sem um 500 þátttakendur af öllu Suðurlandi tóku þátt með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá.

Á samkomunni afhentu Sigurður og Bárður frá Víkurdeildinni, Victori  ávísun uppá rúmlega 130 þúsund krónur og hefur deildin þá alls styrkt starfsemina um 2 milljónir á tímabilinu. Um leið og þeir þökkuðu gott og skemmtilegt samstarf sögðu þeir það von sína að eldri borgarar gætu einnig í framtíðinni nýtt sér aðstöðuna með þeim tækjum og tólum sem þar hefði verið komið upp. Þeir afhentu síðan félagsmiðstöðinni áletraðan Rauða kross platta til að minna á aðkomu deildarinnar að þessu mikilvæga starfi og að lokum afhenti svæðisfulltrúi Rauða kross Íslands grundvallarmarkmið Rauða krossins innrömmuð.
 
Fyrir hönd OZ og Mýrdalshrepps þakkaði Victor frábæran stuðning Víkurdeildar Rauða krossins við uppbyggingu starfsins. Slíkur stuðningur hefði verið ómetanlegur fyrir alla starfsemi OZ.