Svæðisráð fundar í Vestmannaeyjum

4. maí 2007

Á fjölmennum fundi deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum sem haldinn var í Vestmannaeyjum 28. apríl var rætt um stefnu Rauða kross Íslands og áhersluverkefni hennar, kynningarmál og svæðisverkefni.

Deildirnar á svæðinu hafa verið í vinadeildasamstarfi við deild í Serbíu síðustu 10 ár sem mun ljúka í ár. Í vetur hefur verið unnið að undirbúningi að nýju vinadeildasamstarfi svæðisins við deild í Gambíu. Var staða þeirrar vinnu kynnt.  

Sérstakur gestur fundarins var Katim Nget frá gambíska Rauða krossinum. Flutti hann fróðlegt erindi um Gambíu, sögu lands og þjóðar auk þess sem hann kynnti fundarmönnum starfsemi Rauða krossins þar í landi.
 
Í lok fundarins undirrituðu Jóna Holm formaður svæðisráðs og Katim Nget viljayfirlýsingu um samstarf deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum og Lower River Division deildar gambíska Rauða krossins.

Að loknum fundi var farið í skoðunarferð um Vestmannaeyjar undir leiðsögn formanns deildarinnar, Hermanns Einarssonar.