Skyndihjálp, kynning og fjáröflun hjá Árnesingadeild í Rauðakrossvikunni

26. okt. 2011

Skyndihjálp, basarar og kynning á starfi Rauða krossins var það sem boðið var upp á hjá Árnesingadeild Rauða krossins í nýafstaðinni Rauðakrossviku. Vikan hófst á miðvikudegi með skyndihjálparnámskeiði og kynning var haldin á sjálfboðaliðastarfi deildarinnar næsta dag.

Á föstudag var haldinn basar í versluninni Krónunni þar sem seldur var kökubakstur sjálfboðaliða deildarinnar. Þar var roksala og allt seldist upp. Hannyrðir prjónahóps deildarinnar er Árnesingum að góðu kunnar og var mikil aðsókn að basarnum sem deildin hélt á laugardag. Boðið var upp á kaffi og piparkökur og prjónavörurnar runnu út.

Árnesingadeild er afar þakklát sjálfboðaliðunum sem lögðu á sig ómetanlegt starf og gera atburði sem þessa að veruleika. Einnig þakkar deildin þeim sem sýna Rauða krossinum velvilja með þátttöku á atburðum og kaupum á vörum og styrkja starf félagsins í leiðinni.