Starfið á árinu 2006

14. maí 2007

Á Suðurlandi og Suðurnesjum eru 8 deildir: Hveragerðisdeild, Árnesingadeild, Rangárvallasýsludeild, Víkurdeild, Klausturdeild, Vestmanneyjardeild. Grindavíkurdeild og Suðurnesjadeild. Fjölbreytt starf er í þessum deildum, bæði föst árviss verkefni og ýmiss áhersluverkefni sem eru mismunandi eftir árstíma og staðsetningu. Í svæðisráði eru fulltrúar allra deilda og er formaður svæðisráðs Svandís Birkisdóttir. Svæðisskrifstofa Rauða krossins hafði aðsetur í húsnæði Árnesingadeildar en flutti með haustinu í húsnæði Hveragerðisdeildar að Austurmörk 7.

Námskeið
Meðal námskeiða sem deildir héldu má nefna eftirfarandi; almenn námskeið í skyndihjálp, sálrænni skyndihjálp, viðhorf og virðingu, börn og umhverfi, námskeið fyrir almenna heimsóknavini og heimsóknavini til geðfatlaðra. Námskeið fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðheilbrigðismál voru haldin á Selfossi og á Suðurnesjum. Á báðum stöðum mynduðust sjálfshjálparhópar í kjölfarið, tveir hópar á hvorum stað. Einnig var haldið fjölmennt námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra í tengslum við almannavarnaræfinguna Bergrisann.

Bergrisinn
Í lok mars var haldin fjölmenn almannavarnaæfing vegna hugsanlegs eldgoss í Kötlu. Markmið æfingarinnar var að hún væri sem raunverulegust og verkefni valin með hliðsjón af þeim vandamálum sem upp gætu komið í raunverulegu eldgosi. Í fyrsta sinn voru nú æfð viðbrögð vegna Kötlugoss og flóðahættu úr vestanverðum Mýrdalsjökli en æfingar vegna flóða úr austanverðum jöklinum hafa verið haldnar allt frá 1974. Stærsta verkefni æfingarinnar var rýming, en á svæðinu búa um 2200 manns. Auk fastra íbúa, má búast við að á svæðinu dvelji alla jafna fjölmargir sumarhúsaeigendur og ferðamenn. Bergrisinn er stærsta rýmingaræfing sem haldin hefur verið á Íslandi til þessa. Opnaðar voru fjöldahjálparstöðvar á Klaustri, Vík, Skógum, Hvolsvelli og Hellu og kom fjöldi fólks til skráningar í þessar stöðvar eftir að hafa fengið boð um að yfirgefa heimili sín vegna yfirvofandi eldgoss. Almenn ánægja var með æfinguna, sem var lærdómsrík fyrir fjöldahjálparstjóra og sjálfboðaliða deilda Rauða krossins sem og aðra.

Ýmis verkefni
Unnið hefur verið að því að efla verkefni heimsóknavina. Það hefur verið gert með því að halda kynningar á verkefninu, bæði meðal sjálfboðaliða deildanna og einnig meðal almennings, auk þess sem haldin hafa verið nokkur námskeið fyrir heimsóknavini. Nú eru sjö af átta deildum með verkefnið á dagskrá hjá sér og unnið er að undirbúningi í þeirri áttundu.

Allar deildir á svæðinu standa að móttöku á notuðum fatnaði annað hvort með merktum söfnunargámum allt árið um kring eða með móttöku í árlegu söfnunarátaki á svæði deildar. Allur fatnaður fer til flokkunar á höfuðborgarsvæðinu nema frá Suðurnesjadeild sem rekur flokkunarstöð og fataúthlutun í húsnæði deildarinnar.

Góð þátttaka var í landssöfnuninni „Göngum til góðs” þar sem sjálfboðaliðar gengu í hús og söfnuðu fé. Alls staðar var söfnunarfólki tekið vel og dæmi var um að fólk skildi peninga eftir á dyrahúnum húsa ef enginn var heima. 

Svæðisverkefni
Eitt stærsta verkefnið á svæðisvísu var vinadeildasamstarf við deildina í Sremski Karlovci í Serbíu. Þar var stutt við rekstur súpueldhúss þar sem eldaðar eru um 150 máltíðir á dag handa bágstöddum. Einnig var stuðningur við rekstur vinnustofu (föndur) fyrir börn og ungmenni, heimsóknaþjónustu, fræðsluverkefni vegna alnæmis, svo dæmi séu tekin. Vinadeildarsamstarfinu lýkur árið 2007 og er nú hafinn undirbúningur að nýju vinadeildarsamstarfi sem væntanlega verður við deild í Gambíu.

Svæðið styrkti rekstur sumarbúða fyrir fötluð ungmenni að Löngumýri í Skagafirði. Í ár sóttu engir þátttakendur af svæðinu sumarbúðirnar en vonast er til að með aukinni kynningu verði breyting þar á og fatlaðir af Suðulandi og Suðurnesjum njóti þessarar fjölbreyttu sumardvalar á Norðurlandi.

Svæðisfundur var að þessu sinni haldinn á Kirkjubæjarklaustri í október og hafði deildin á Klaustri veg og vanda að undirbúningi hans. Fundurinn var ágætlega sóttur af fulltrúum allra deilda. Fundir svæðisráðs eru yfirleitt símafundir en nefndir ráðsins hittast þó á fundum.