Skemmtilegt og fræðandi námskeið í sálrænum stuðningi

7. nóv. 2011

Markviss undirbúningur hefur verið í gangi fyrir flugslysaæfinguna á Keflavíkurflugvelli 12. nóvember nk. og hafa Suðurnesjadeild og Grindavíkurdeild staðið saman að námskeiðum í fjöldahjálp, meðferð tetrastöðva og þann 29. október héldu deildirnar sameiginlegt námskeið í sálrænum stuðningi.

Á því námskeiði var farið yfir fræðilega hlið sálræns stuðnings, af hverju og hvernig hann er veittur.

Sterklega er mælt með sálrænum stuðningi sem hluta af aðstoð í bráðaaðstæðum og því mjög gagnlegt fyrir okkur sem sinnum neyðarvörnum að fá góðan undirbúning á því sviði en einnig fyrir þá sem hugsanlega koma að starfinu með okkur þegar alvarlegir atburðir eiga sér stað og opna þarf fjöldahjálparstöð.

Þetta ítarlega 6 klst. námskeið samanstóð af fyrirlestrum og verklegum æfingum.
Leiðbeinendur voru Björk Sverrisdóttir, Jóhann Thoroddsen og Valdís Inga Kristinsdóttir.

Rauði kross Íslands sinnir fjöldahjálp og félagslegu hjálparstarfi samkvæmt samningi við Almannavarnir ríkisins. Rauða kross deildir opna fjöldahjálparstöðvar á hættu- og neyðartímum þar sem fólki er veitt fyrsta aðstoð svo sem upplýsingar, fæði og klæði og sameining fjölskyldna fer fram. Rauði krossinn bregst einnig við skyndilegum áföllum utan almannavarnaástands eins og húsbrunum og flóðum.
 
Helstu verkefni Rauða krossins í almannavörnum:

•       Uppsetning og starfræksla á fjöldahjálparstöðvum fyrir fólk sem þarf að yfirgefa heimili sín á hættu‐ og neyðartímum
•       Móttaka og skráning þolenda með það að markmiði að sameina fjölskyldur
•        Sálrænn stuðningur og sérhæfður stuðningur frá áfallahjálparteymi Rauða krossins
•       Þjónusta við aðstandendur; Almenn skyndihjálp
•        Félagsleg endurreisn, eftir því sem þörf er á, í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir ríkis og sveitarfélaga, þar með talin þátttaka í rekstri þjónustumiðstöðva almannavarna.

Neyðarvarnarnefnd Grindavíkur