Svæðisfundur deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum

2. okt. 2007

Svæðisfundur Rauða kross deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum var haldinn á Hótel Hvolsvelli á laugardaginn. Um undirbúning og framkvæmd fundarins sá Rangárvallasýsludeild.

Mörg mál voru reifuð og rædd. Auk venjulegra fundarstarfa var stærsta málefni fundarins nýtt vinadeildasamstarf  við Rauða kross deild í Gambíu. Kynntur var undirbúningur vinadeildasamstarfsins í máli og myndum sagt var frá heimsókn fulltrúa af svæðinu til Gambíu á vordögum til að kynna sér hvernig best yrði staðið að samstarfinu. Að lokum voru tillögur að verkefnum skýrðar fundarmönnum. Guðfinna Bogadóttir, annar sjálfboðaliðanna sem heimsóttu Gambíu í vor, sagði frá heimsókninni og því hvernig hún upplifði að koma til þessa framandi lands. Hún sagði meðal annars frá mat og matarvenjum og bauð fundarmönnum að bragða á kryddgrjónum og mangó sem er undirstöðufæða á þessum slóðum.

Fundarmenn fóru á njáluslóðir. Jón Ólafsson við hof sem hann gerði og stendur við Langbrók í Fljótshlíð.
Í stuttu innleggi frá deildum kom vel í ljós hið mikla og fjölbreytta starf sem Rauða kross deildir vinna að. Eftir fundinn mátti heyra á fundarmönnum hve gott væri að fræðast um það hvaða verkefni hinar deildirnar væru að vinna að utan þeirra hefðbundnu sem allar deildir hafa á sinni dagskrá.

Allar deildir á svæðinu eiga fulltrúa í svæðisráði. Nýr formaður svæðisráðs er Eiríkur Jóhannsson frá Árnesingadeild. Fundinn sóttu um 30 manns, auk gesta, þeirra Kristjáns Sturlusonar framkvæmdastjóra Rauða krossins og Pálínu Matthíasdóttur fulltrúa URKÍ.

Að loknum fundi var boðið uppá fróðlega skoðunarferð um Njáluslóð og síðan var  sameiginlegur kvöldverður og samvera um kvöldið.