Forseti Íslands leggur Rauða krossinum á Suðurnesjum lið

19. okt. 2007

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti kynnti sér í dag starfsemi Suðurnesjadeildar Rauða krossins. Þetta var liður í kynningarátaki Rauða krossins á innanlandsstarfi félagsins. 

Í heimsókn sinni opnaði forseti Íslands formlega nytjamarkað Rauða krossins í húsnæði deildarinnar að Smiðjuvöllum 8, Reykjanesbæ.  Markaðurinn hefur fengið nafnið Kompan og verður starfræktur í samstarfi við sorpeyðingarstöðina Kölku. Allur hagnaður rennur til mannúðarmála. Á sama stað er starfrækt fataflokkunarstöð þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins úthluta fötum til þeirra sem á þurfa að halda á hverjum föstudegi milli kl.13:00 – 16:30 .

Ólafur Ragnar hélt þaðan í heimsókn til Rauða krossins í Grindavík að Hafnargötu 13, þar sem hann fræddist um starfsemi deildarinnar.  Þaðan fór  forsetinn ásamt sjálfboðaliðum Rauða krossins í verslun í Grindavík til að aðstoða þá við að afla nýrra liðsmanna Rauða krossins.