Tálgað í tré

1. feb. 2008

Árnesingadeild ákvað við gerð áætlunar síðastliðið haust að bjóða eldri mönnum aðstöðu í húsnæði deildarinnar til að koma saman. Þetta var meðal annars kynnt á opnu húsi deildarinnar í kynningarviku Rauða krossins í haust þar sem boðið var uppá stutta sýnikennslu í útskurði. Það sýndi sig strax að áhugi var fyrir hendi, bæði hjá konum og körlum.

Til að hrinda verkefninu af stað var byrjað á að bjóða einfalt námskeið í tréskurði. Námskeiðið stendur nú yfir og hittist hópurinn einu sinni í viku 3 klst. í senn.

Notaður er blautviður úr birki og ösp og eina verkfærið sem þátttakendur nota er vel beittur tálguhnífur. Á námskeiðinu tálga þátttakendur meðal annars smjörhnífa, fugla, skóhorn og þvottaklemmur. Auk þess fræðast þau um eiginleika viðarins. Leiðbeinandi á námskeiðinu er Guðmundur Magnússon sem hefur sérhæft sig í að tálga úr efni sem til fellur í íslenskum skógum.

Vonar Árnesingadeildin að þátttakendur nýti sér áfram aðstöðu í húsnæði deildarinnar til að hittast og tálga.

 

Þátttakendur einbeittir við vinnuna, enda með beitta hnífa í hönd.