Þjóðahátíð í Þorlákshöfn

26. feb. 2008

Á dögunum var haldin þjóðahátíð í Þorlákshöfn og er það í annað sinn sem hátíð af þessu tagi er haldin í bænum. Að þessu sinni var lögð áhersla á að kynna eftirfarandi lönd; Tæland, Mongólíu, Filippseyjar, Pólland, Tékkland, Danmörk og Ísland.

Öll löndin voru með kynningarbása þar sem ýmiss menning landanna var kynnt með myndum, hlutum og matvælum auk þess sem margir klæddumst dæmigerðum fatnaði sinnar þjóðar og svöruðu spurningum gesta. 

Árnesingadeild Rauða krossins, sem styrkti hátíðina, var einnig með kynningarbás þar sem sjálfboðaliðar kynntu félagið og verkefni deildarinnar. Fjölmörg skemmtiatriði voru flutt, meðal annars dans, söngur og upplestur. Ungar stúlkur, ein frá hverju landi, fluttu ljóð frá sínu heimalandi.

Fjöldi fólks sótti hátíðina, bæði heimamenn og aðrir og var almenn ánægja meðal gesta að fá tækifæri til að kynnast framandi löndum með þessum hætti. Í Þorlákshöfn og sveitarfélagi Ölfuss eru íbúar af erlendum uppruna tæplega 13%, frá rúmlega tuttugu þjóðlöndum.

 

Sjö ungar stúlkur fluttu ljóð á sínum móðurmálum.