Nýr formaður Rangárvallasýsludeildar

4. mar. 2008

Aðalfundur Rangárvallasýsludeildar Rauða krossins var haldinn í Hótel Hvolsvelli á laugardaginn. Fram kom í skýrslu formanns að unnið hefur verið að mörgum verkefnum á árinu.

Deildin tekur á móti notuðum fatnaði í söfnunargáma, bæði á Hvolsvelli og Hellu. Á síðasta ári söfnuðust sex tonn af fatnaði sem send voru til Fataflokkunarstöðvarinnar í Hafnarfirði. Meðal nýrra verkefna má nefna prjónahóp sem hittist vikulega í húsnæði deildarinnar og prjónar til góðra verka.

Gestur á fundinum var Hólmfríður Garðarsdóttir sem starfað hefur sem yfirmaður Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Mósambík. Flutti hún fróðlegt erindi og sýndi myndir frá Mósambík, en þar gegndi Rauði krossinn miklu hlutverki í neyðaraðstoð árið 2007.

Breytingar voru gerðar á stjórn. Formaður deildarinnar Einar Erlendsson gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var Árni Þorgilsson kosinn formaður í hans stað. Einar mun hinsvegar starfa áfram með deildinni sem meðstjórnandi. Bára Sólmundsdóttur sem ekki gaf kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu mun áfram stjórna verkefni heimsóknavina og prjónahóps.