Skyndihjálparviðurkenningar á aðalfundi Árnesingadeildar

17. mar. 2008

Árnesingadeild Rauða kross Íslands hélt aðalfund sinn að Hótel Flúðum. Auk venjulegra aðalfundarstarfa fengu tveir ungir menn viðurkenningu fyrir að hafa sýnt eftirtektarverða færni og þekkingu í skyndihjálp árið 2007.

Guðmann Unnsteinsson og Þórarinn Pálsson voru í fjallgöngu ásamt vini sínum sem féll um 70 metra í gljúfur. Þeir stóðu sig frábærlega, beittu réttum aðferðum og nýttu þekkingu sem þeir fengu á skyndihjálparnámskeiðum Rauða krossins sem þeir tóku í grunn- og framhaldsskóla. Þeir unnu mikið þrekvirki.

Gestur fundarins var Jón Brynjar Birgisson verkefnisstjóri neyðarvarna Rauða krossins. Ræddi hann um mikilvægi þess að deildir hefðu neyðarvarnaáætlanir sínar vel uppfærðar og á að skipa vel þjálfuðum fjöldahjálparstjórum, því hamfarir og slys gera sjaldnast boð á undan sér.

 

Þórarinn, Marianne formaður deildarinnar og Guðmann.

Stjórn deildarinnar var endurkjörin en hana skipa: Marianne B. Nilsen formaður, Urður Skúladóttir ritari, Bergdís Sigurðardóttir gjaldkeri, Ármann Höskuldsson og Eiríkur Jóhannsson. Meðstjórnendur og varamenn: Anna B. Matthíasdóttir og Guðmundur Magnússon. Endurskoðandi var kjörinn Kristófer Tómasson en fráfarandi endurskoðandi er Jórunn Lilja Andrésdóttir og vill deildin þakka henni vel unnin störf á liðnum árum. Einnig lætur af störfum Margrét Gunnarsdóttir sem hefur fært bókhald deildarinnar og er henni þakkað frábært starf sem hún hefur unnið af nákvæmni og samviskusemi.