Aðalfundum deilda lokið

25. mar. 2008

Aðalfundum deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum, átta talsins, var lokið fyrir páska. Fram kom á fundunum að deildir vinna að fjöldamörgum og fjölbreyttum verkefnum. Sum eru þau sömu hjá öllum deildum og má þar nefna námskeiðahald í skyndihjálp, neyðarvarnir og neyðaraðstoð. Önnur verkefni eru síðan valin eftir því hver þörfin er á hverjum tíma á svæði deildanna.

Eitt af áhersluverkefnum Rauða krossins er að vinna gegn félagslegri einangrun. Verkefni heimsóknavina falla undir þann málaflokk. Allar deildir á Suðurlandi og Suðurnesjum eru með heimsóknavini starfandi og hefur verkefnið eflst mikið síðustu ár.

Deildirnar hafa með sér samstarf um ákveðin verkefni. Má þar nefna vinadeildasamstarf við Rauða kross deild í Lower River í Gambíu. Í vetur hafa sjálfboðaliðar unnið að því að safna fatnaði og öðrum varningi sem hefur verið sendur til Gambíu þar sem honum er dreift meðal fólks í neyð og á þurfa að halda. Skólabörn á Suðurlandi og Suðurnesjum hafa víða tekið þátt í þessu verkefni með því að gefa skóladót eða annan varning sem afhentur verður skólabörnum í Gambíu.

Á aðalfundum tveggja deilda var boðið uppá tónlistaratriði sem gaf fundunum skemmtilegt og menningarlegt yfirbragð. Þetta voru Víkurdeild, sem hefur stutt við Félagsmiðstöðina OZ á undanförnum árum. Þrjú ungmenni úr OZ spiluðu og sungu nokkur lög.

Hjá Suðurnesjadeild hefur skapast sú hefð að nemendur úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar mæta á aðalfundinn og spila nokkur lög. Í ár var engin undantekning og mættu sjö nemendur  ásamt kennara sínum og spiluðu þrjú falleg lög á gítar við góðar undirtektir fundarmanna.

Nemendur úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar ásamt kennara sínum.