Málþing um innflytjendamál

17. apr. 2008

Málþing um málefni innflytjenda var haldið í Þorlákshöfn í síðustu viku fyrir tilstuðlan Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.

Meðal þeirra fjölmörgu sem fluttu erindi voru þrír starfsmenn Rauða krossins á landsbyggðinni; Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi á Vestfjörðum sem sagði frá aðkomu almennings að málefnum innflytjenda, Berglind Ósk Agnarsdóttir verkefnisstjóri sem sagði frá nýju verkefni um móttöku nýrra íbúa í Fjarðarbyggð og Anna Lára Steindal starfsmaður Akranesdeildar sem sagi frá samningi Akraneskaupsstaðar og Rauða krossins um móttöku innflytjenda. Erindi þeirra allra voru upplýsandi um stöðu innflytjendamála á þeirra svæði og með hvaða hætti Rauði krossinn kemur að þeim.

Víða á landsbyggðinni er samstarf margra um þennan málaflokk og er Rauði krossinn oft einn þeirra aðila sem kemur að verkefnum með einum eða öðrum hætti.  Í máli margra annarra fyrirlesara á málþinginu kom fram að Rauði krossinn kemur víða við sögu þegar málefni innflytjenda eru annars vegar.
 
Á málþinginu gafst þátttakendum kostur á að vera með kynningarbás í anddyri. Rauði krossinn kynnti þar ýmiss verkefni með innflytjendum auk þess sem bæklingum var dreift. Bókaverkefni svæðisráðs á Suðurlandi og Suðurnesjum var meðal þess sem kynnt var en þar er um að ræða svokallað færanlegt bókasafn fyrir útlendinga. Svo skemmtilega vildi til að nokkrir pólskir íbúar Þorlákshafnar kíktu við i kynningarbásnum og urðu þeir mjög ánægðir með að sjá nýjar og spennandi bækur sem þeir geta fengið að láni á bókasafninu í Þorlákshöfn, sem er eitt þeirra bókasafna sem svæðisráð hefur samstarf við í þessu verkefni.

 

Starfmenn Rauða krossinn kynntu verkefni fyrir gestum.