Vorfundur svæðisráðs með alþjóðlegum blæ

28. apr. 2008

Alþjóðastarf Rauða krossins og þróunarsamvinna var aðal umfjöllunarefni vorfundar svæðisráðs Suðurlands og Suðurnesja. Suðurnesjadeild hafði veg og vanda að fundinum sem haldinn var í Reykjanesbæ.

Kynnt var nýtt vinadeildasamstarf deilda á svæðinu við deild á Lower River svæðinu í Gambíu. Sýndar voru myndir og sagt frá framgangi verkefna sem unnið er þar að fyrir styrk frá deildum svæðisins. Einnig var í máli og myndum sagt frá undirbúningi þess að senda gám til Gambíu með varningi til styrktar deildinni og íbúum á svæðinu.
 
Helga Þórólfsdóttir sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða kross Íslands skýrði fundarmönnum frá því hvernig landsfélagið kemur að samvinnu og verkefnum á alþjóðavísu, auk þess sem hún var með hugleiðingar um vinadeildasamstarf og hvernig það væri að þróast.

Guðfinna Bogadóttir formaður Grindavíkurdeildar kynnti Central River deild Rauða krossins í Gambíu og sagði frá heimsókn sinni þangað vorið 2007.

Eftir fundinn bauð Suðurnesjadeild fundarmönnum og mökum í skoðunarferð. Keyrt var um gamla vallarsvæðið þar sem bandaríski herinn hafði aðsetur sitt þar til fyrir stuttu. Síðan var farið um Reykjanesið, stoppað við Garðskagavita þar sem byggðasafnið var skoðað og kaffihúsið heimsótt. Fæstir gestanna höfðu ekið um þessar slóðir áður og eiga eflaust margir eftir að leggja þangað leið sína aftur og skoða sig meira um. Leiðsögumaður í ferðinni var Helga Ingimundardóttir sem hafði frá mörgu fróðlegu að segja.