Fjölbrautarskóli Suðurlands útskrifar nema af áfanga um sjálfboðið starf

16. maí 2008

Á vorönn var Árnesingadeild Rauða krossins með áfanga um sjálfboðið starf sem metið var til eininga í SBS 172 í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Fjórar stúlkur á aldrinum 17 til 34 ára völdu áfangann og kennari var Ingibjörg Elsa Björnsdóttir jarðfræðingur.

Nemarnir skiluðu einni klukkustund á viku í sjálfboðnu starfi; heimsóttu vistmenn hjúkrunarheimilisins á Ljósheimum og komu að lengdri viðveru fyrir fötluð börn í Sunnulækjarskóla og Vinnustofu fatlaðra á Selfossi. Boðið var upp á grunnnámskeið Rauða krossins og námskeiðið Viðhorf og virðing. Í lok annarinnar skrifuðu þær ritgerð og stóðu sig mjög vel, fengu 8.5 og 9 í lokaeinkunn.

Deildin stefnir að því að hafa þennan áfanga í Fjölbraut áfram og forráðamenn þeirra stofnana sem stelpurnar heimsóttu voru ánægðir með samstarfið. Vill deildin þakka öllum sem komu að verkefninu kærlega fyrir og hlakkar til áframhaldandi samstarfs.