Biðröð við opnun basars prjónahóps Árnesingadeildar

23. okt. 2008

Árlegur basar prjónahóps Árnesingadeildar var í húnæði deildarinnar á laugardaginn. Svo mikill áhugi var fyrir basarnum að þessu sinni að biðröð hafði myndast þegar opnað var klukkan tíu um morguninn. Allur ágóði rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins, en sá sjóður er nýttur til verkefna í hjálparstarfi erlendis.

Prjónahópurinn, sem kallar sig „síðasta umferðin,” hefur verið afar vinsæll meðal kvenna og stækkar með hverju árinu. Konurnar prjóna sokka, vettlinga, húfur og annað prjónles ásamt því að framleiða annað fallegt nytsamlegt handverk. Margir koma á basarinn á hverju ári og kaupa þar fallega muni til gjafa. Nýjasta afurð kvennanna eru prjónaðar dúkkur sem allar seldust strax eftir opnun. Þau verða eflaust ánægð börnin sem fá dúkkurnar í jólapakka í ár.

Svo mikill er áhuginn hjá konunum, sem hittast á mánudögum frá 13:00-16:00, að þær tóku sér einungis tveggja vikna frí í sumar. Fríið nýttu þær síðan til að prjóna heima og komu til starfa eftir sumarfrí hlaðnar fallegu prjónlesi. Það er alltaf glatt á hjalla og vel tekið á móti nýjum prjónakonum sem vilja leggja verkefninu lið í skemmtilegum félagsskap. 

Sú hefð hefur skapast að bjóða uppá kaffi og nýbakaðar vöfflur og hefur það ekki dregið úr  vinsældum þessa árlega basars, enda bökunarilmur alltaf lokkandi.

Biðröð myndaðist þar sem beðið var eftir því að borga.
Boðið var uppá kaffi og nýbakaðar vöfflur.